151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[16:46]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir framsögu á þessu ágæta frumvarpi og auk þess vil ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Það hefur verið gagnlegt og fróðlegt að hlusta á ýmsar vangaveltur og skoðanir varðandi þjóðkirkjuna og evangelíska lúterska trú, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom mjög vel inn á í sinni ágætu ræðu. Ég telst líklega til þess hóps sem er innmúraður og innfæddur inn í þessa ágætu stofnun sem prestssonur og ég hef töluverðar skoðanir á þessum hlutum.

Frumvarpið sem slíkt er skýrt og að mörgu leyti gott. En mig langar að koma inn á ýmsa þætti í þessari umræðu um þau nýju heildarlög sem við erum að fjalla hérna um, lög um þjóðkirkjuna sem eiga að stuðla að sjálfstæði hennar. Þegar við tölum um sjálfstæði kirkjunnar, og menn eru farnir aðeins að tala um aðskilnað ríkis og kirkju og sumir telja að þetta sé skref í þá átt, þá vil ég ítreka að ég er ekki kominn það langt á þróunarbrautinni að ég vilji fara að tala mikið um aðskilnað ríkis og kirkju enda tel ég mjög mikilvægt að þessir tveir hlutir séu í sama herberginu.

Ég ætla á þeim tíma sem ég hef í þessum ræðustól að fjalla aðeins um þjónustu þjóðkirkjunnar í dreifbýli og mikilvægi þeirrar þjónustu sem þjónar kirkjunnar, prestar, veita þar. Prestur í hverju prestakalli fyrir sig gegnir mikilvægu og fjölbreyttu hlutverki og er oft hornsteinn í því samfélagi þar sem hann býr. Vissulega hafa orðið mjög miklar breytingar undanfarin ár á þjónustu kirkjunnar í dreifbýli. Ég man vel að þegar ég var ungur maður og yngri, og er ég ekki orðinn gamall, virðulegur forseti, þá voru í því prestakalli þar sem ég þekki hvað best til, sem nú heitir Laufásprestakall, þrjú prestaköll sem nú er búið að sameina í eitt. Þar af leiðandi voru þar þrír prestar. Þar gegnir núna einn prestur því hlutverki sem áður gegndu þrír. Vissulega hafa orðið ákveðnar breytingar á búháttum og þess háttar, en það sem ég er að segja með þessu er að þegar við tölum um sjálfstæði kirkjunnar þá mega menn ekki horfa á hana sem fyrirtæki sem leitar bara endalaust hagræðingar og sker niður þjónustu á jöðrunum. Við verðum að halda uppi þeirri þjónustu sem hefur verið til staðar og verður vonandi áfram, sem kirkjan getur veitt, því það er þannig, hvort sem menn eru innmúraðir inn í þjóðkirkjuna eða ekki — það þekki ég mjög vel sjálfur af því að ég þekki fjölda fólks sem er ekki innan þjóðkirkjunnar — nýta þeir sér samt þá þjónustu sem þar er í boði. Hvaða trúfélagi sem menn eru aðilar að er það þannig að í dreifbýlinu nýta menn sér, þvert á trúfélög, þjónustu þjóðkirkjunnar. Þar af leiðandi er svo mikilvægt að kirkjan sé til staðar til að veita þá þjónustu sem felst í sáluhjálp eða hvað þetta allt saman heitir og að því verði haldið áfram. Ég óttast aðeins að menn horfi til breytinga á þessu, og miðað við það sem maður þekkir á þeim tíma sem maður hefur fylgst með hafa sóknir sameinast, prestaköll stækkað og prestum fækkað.

Við tölum reglulega um það á hátíðlegum stundum að verja dreifbýlið og ég ætla að horfa á þetta út frá byggðasjónarmiði. Þetta er nákvæmlega það sama og gerist alltaf. Við þurfum alltaf að verja þá stöðu sem er í dreifbýlinu, hvort sem það er atvinnulega eða varðandi skóla, varðandi kirkjuna líka. Þar af leiðandi vil ég vara við því að menn taki stóra skrefið nema menn hafi tryggt að sú þjónusta sem fyrir er á landsbyggðinni verði áfram.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson fór mikinn varðandi samning ríkis og kirkju sem snýr að jörðum. Vissulega byggist þetta allt á jörðum sem kirkjan á og ríkið hefur fært sér til nytjar, vissulega byggist þetta á einhverjum samningi, en ég myndi vilja einfalda þetta þannig að menn hafi þarna einhvern ákveðinn grunn sem er miðað út frá en númer eitt, tvö og þrjú er að veita þjónustu. Til er ákveðin stofnun, sem í þessu tilliti er þjóðkirkjan, langflestir eru í henni og enn fleiri nýta sér þjónustuna og þar af leiðandi er eðlilegt að ríkið og stofnunin séu tengd.

En með því frumvarpi sem er hér til umfjöllunar er ákveðin einföldun á ansi mörgum hlutum, verið er að skýra starfssvið og annað og er ágætisvinna og verður væntanlega fróðleg vinna í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem mun fjalla um frumvarpið. Við heyrum það að þegar þjóðkirkjan kemur til umræðu á hinu háa Alþingi eru ansi skiptar skoðanir um hana og hlutverk hennar. Ég vildi koma hingað upp og koma þessu sjónarmiði á framfæri, þ.e. því mikilvæga þjónustuhlutverki sem þjóðkirkjan gegnir á landsbyggðinni. Við höfum horft upp á það að prestum hefur fækkað og sóknir sameinast og prestaköll verið lögð niður. Ég tel að ekki verði lengra gengið í þeim efnum. Við getum tekið sem dæmi að sum prestaköll eru orðin það stór að þar eru kannski 140–150 km enda á milli og stundum yfir fjallvegi að fara og þess háttar til að þjónusta fólk sem þar býr og menn þurfa að verða boðnir og búnir allan sólarhringinn til þess. Þar af leiðandi vil ég koma þessum sjónarmiðum á framfæri í þeirri vinnu sem fram undan er, að menn gæti að því að halda þessum hlutum þannig að sú þjónusta sem þjóðkirkjan hefur veitt komi til með að vera veitt áfram.