151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu drengja í skólakerfinu.

489. mál
[18:10]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er svo margt sem mig langar að segja að ég ákvað að stíga aðeins inn og taka hér til máls. Maður hefur séð það í gegnum tíðina, bæði á ferðalögum erlendis og þegar maður er að kynna sér aðstæður á erlendri grundu, menntakerfi annars staðar og aðbúnað barna og kennsluhætti, að í rauninni — þrátt fyrir okkar góða samfélag á flestum stigum a.m.k., eða það ætti að vera það, miðað við gorgeirinn í okkur yfir því að Ísland sé eitt stórasta land í heimi, eins og þar stendur, við þykjumst vera með hreinasta loftið og allt best af öllu og besta vatnið og flottasta tungumálið og ég veit ekki hvað og hvað — er staðreyndin er sú að stundum þarf ekki að gera rosalega mikið til þess að áorka miklu og ná risamarkmiðum. Það þarf ekki alltaf mikla peninga til að gjörbreyta umgjörðinni og gefa a.m.k. ákveðið tækifæri. Það kemur mér mjög á óvart núna í tíð okkar ágæta hæstv. menntamálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, sem er ekki hér hjá okkur til þess að svara, að í rauninni skuli það ekki gert. Mér fannst viljinn vera svo mikill og ástríðan svo mikil þegar kjörtímabilið hófst að ég hafði ákveðnar væntingar um að við myndum sjá jákvæðar breytingar, eða a.m.k. jákvæðari. Nú stöndum við frammi fyrir því að tölvukerfi fyrir samræmd próf er ekki einu sinni uppfært þannig að það á bara að sleppa þeim. Það er afskaplega þægilegt að sleppa þeim bara af því að við skorum jú ekki svo hátt í þeim miðað við aðrar þjóðir í kringum okkur. Við drögum, því miður, lestina, höngum aftan í halanum á allt of mörgum sviðum.

Við erum líka að glíma við einelti, sem hefur nú til allrar lukku dregið mjög mikið úr en er orðið miklu sýnilegra í samfélaginu og við erum að berjast gegn því af öllum kröftum. Því langar mig að segja litla reynslusögu sem mér finnst mjög athygliverð og gerðist á Spáni fyrir allnokkrum árum. Ég heyrði alltaf, þar sem ég sat sunnan undir húsvegg, mikið stuð og mikið fjör, ABBA-söng og bítlalög og allt voða gaman einhvers staðar, einhverjir voru bara í partíi, að ég hélt, klukkan 9 og klukkan 10 og klukkan 11, alltaf á klukkutíma fresti var allt í stuði. Ég fór í smá vettvangskönnun og hvað sé ég? Jú, það er grunnskóli rétt hjá staðnum þar sem ég bjó á þessum tíma. Þar var fjölþjóðlegt samfélag barna alls staðar að og ríkti mikil gleði á skólalóðinni sem var algerlega afgirt og landslagið pínulítið öðruvísi þar en við eigum að venjast. Þau höfðu sett upp hátalara, sem kostaði ekki nema einhverjar baunir, svo maður segi eins og er. Það kostaði nánast ekki neitt að setja hátalara á skólalóðina og ævinlega í frímínútum var sett á eitthvert klassískt lag, eitthvað sem þau gátu sungið með, eitthvað sem veitti gleði þegar þau voru að leika sér með boltann. Það þekkist ekki hér. Ég fór að spyrjast fyrir um þetta og vildi skoða þetta. Mig langaði að vita meira. Af hverju gerið þið þetta? Af hverju er allt í stuði hér í frímínútum? Ofboðslega hlýtur að vera gaman í þessum skóla, allir að syngja og raula, af öllum þjóðum, gulur, rauður, grænn og blár, svartur, hvítur, fjólublár, þau töluðu alls konar tungumál en þau gátu sungið saman því að þetta voru klassísk lög, þau þekktu lögin. Þau nálguðust hvert annað og sungu saman. Það var unaðslegt. Þá kemur það í ljós: Með þessu hafði tekist að koma í veg fyrir einelti, gjörsamlega. Þar var enginn dreginn undir húsvegg og lúskrað á honum einhvers staðar í skjóli og felum. Þarna voru allir sýnilegir og glaðir. Það var svo áberandi. Og það var gaman að tala við kennara sem sögðu að stökkbreyting hefði orðið á líðan og andlegri heilsu barnanna.

Hvað myndi þetta gera fyrir börnin okkar, bara þetta? Þetta kostar ekki neitt. Mætti ekki alveg eins prófa að gera tilraun í einum skóla? Ég myndi náttúrlega vilja hengja hátalara utan á þá alla. Ég veit að söngurinn gleður hjartað, hvað þá þegar allir geta tekið lagið saman. Börnin okkar eru miklu opnari og frjálsari, þau eru ekki svona tepruleg eins og við verðum seinna meir og alltaf að þykjast vera eitthvað annað en við erum. Þau eru það ekki. Þau eru frjáls, þau eru einlæg og með því að gefa þeim þetta, bara þetta litla dæmi, myndi ég segja að þau héldu einlægni sinni og gleði áfram, t.d. í sambandi við tjáningu. Hvað eru þau mörg, börnin okkar, sem eru svo inn í sig að þau þora varla að standa upp og segja nafnið sitt? Hvað er gert í skólanum til að efla sjálfsstyrkingu þeirra? Ég held að það sé afskaplega takmarkað. Ég get sagt sögu af barnabarni mínu, 12 ára gömlu. Það er með harmkvælum að hann leggur í að lesa upphátt fyrir mig. Ég sæi hann ekki alveg standa fyrir framan heilan bekk og ætla að þylja yfir krökkunum. Það gengi ekki upp. Það skortir sjálfstraust, ekki bara í drengina heldur í börnin okkar yfir höfuð. Það erum við sem eigum að koma sjálfstrausti í þau þannig að þeim líði vel í skólanum og þau hafi gaman af að glíma við námið.

Byrjunin er að leggja ekki á þau það þunga klafa að þau nái ekki að skara fram úr neins staðar og kunni ekki einu sinni að lesa. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir talar um hvers vegna hér verða svona mikil afföll, og þá stærri hlutinn drengir, þegar komið er upp í framhaldsskóla. Getur ekki verið að þegar maður er ólæs eða með lélegan lesskilning, og mætir þeim áskorunum sem felast í því að ganga yfir þann þröskuld að fara úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla, missi maður algjörlega fótanna þegar maður keyrir á vegg og sér að maður höndlar ekki það sem maður er kominn með í fangið? Alveg sama hvað mann langar mikið til að verða eitthvað þegar maður verður stór, alveg sama þótt maður sé tilbúinn að leggja á sig nánast hvað sem er sem ungur maður eða ung kona. Það er grundvallaratriði að við gefum börnunum okkar kerfi sem gerir það að verkum að þeim líður vel í skólanum, sem gerir það að verkum að þau eru læs þegar þau útskrifast úr grunnskóla, sem gerir það að verkum að við þurfum aldrei að standa hér og velta vöngum yfir því hvort börnin okkar séu að flosna upp úr námi af því að þau höndli það ekki vegna ólæsis eða lélegs lesskilnings. Grunnurinn að þessu öllu og undirstaðan er að byrja strax að gefa þeim sjálfstraust, veita þeim öryggi, kenna þeim tjáningu, láta þau syngja og gefa þeim gleði, fylla þau af jákvæðni, bjartsýni og brosi í stað þess að fylla þau nánast, eins og við sjáum með stóran hóp, af depurð og kvíða og þunglyndislyfjum. Við þurfum ekkert að hafa það svona, það þarf ekki að vera svona, virðulegi forseti.

Flokkur fólksins segir: Við viljum ekki sjá þetta svona. Ég ætla að vona að við ætlum hér að taka saman höndum og berjast með oddi og egg fyrir því að við breytum þessu fyrir börnin okkar. Ég veit að við getum það ef við tökum saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum. Þetta á ekki að vera pólitík. Þetta er langt vaxið yfir pólitík. Við erum að tala um grasrótina okkar, um framtíðina, um börnin okkar. Og hvað er það sem við viljum gera fyrir þau? Allt. Hvert einasta foreldri, undantekningarlítið eða -laust, segir: Ég vil gera allt fyrir barnið mitt. Þess vegna eigum við að gera það líka, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar. Við eigum að gera allt fyrir börnin okkar til að þeim líði vel í þeirri tilveru sem við mótum á svo stóran hátt í kringum þau.

Burt séð frá öllu sem ég hef þegar sagt þá get ég líka nefnt annað sem við erum að berjast gegn, Flokkur fólksins. Það er vanlíðan vegna fátæktar, vanlíðan þegar barn er skilið eftir, þegar það getur ekki tekið þátt, hvorki í félagsstarfi, íþróttum né nokkru öðru af því að ekki eru til peningar. Það er okkar líka tryggja að enginn sé skilinn eftir og skilinn út undan. Það eru vond stjórnvöld, virðulegi forseti, sem draga ákveðna þjóðfélagshópa út undir fjósgarð og skilja þá út undan. Nú eru eftir nokkrir mánuðir til að gera bragarbót þannig að við tryggjum fæði, klæði og húsnæði fyrir alla. Það eru börnin okkar sem við eigum að berjast fyrir númer eitt, tvö og þrjú, veita þeim gleði, öryggi og almennilega menntun sem er á þeirra forsendum af því að þau hafa burði til að takast á við hana en eru ekki skilin eftir, eftir útskrift í tíunda bekk, með lélegan lesskilning eða ólæs.