151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

velferð dýra.

543. mál
[19:04]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir brýninguna. Ég vil nú helst ekki vera að blanda mér mikið inn í Miðflokkinn þar sem ég er í Framsóknarflokknum, en það er virkilega spennandi að sjá hvað þeir eru með í landbúnaðarstefnu sinni. En í ræðu minni áðan beindi ég ekki orðum mínum beint að hv. þingmanni og kallaði hann rugludall eða eitthvað svoleiðis. Ég sagði bara: Þetta er bara rugl í mínum huga. (IngS: …ósatt …) Það er þannig, hv. þingmaður, samkvæmt gögnum frá Ísteka og frá Matvælastofnun, að að meðaltali er tekið blóð fimm sinnum á ári á meðan hryssan gefur þetta blóð. Það er að meðaltali fimm sinnum og það má ekki taka meira en átta sinnum úr hverri hryssu, átta sinnum. Meðaltalið er fimm sinnum. Þannig er það nú.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hversu lengi ég á að standa hérna og svara fyrir þá ræðu sem ég fór með áðan því að ég fékk ekki beina spurningu, en ef hv. þingmaður telur að ég hafi gengið of langt í gagnrýni minni á frumvarpið bið ég hana innilegrar afsökunar á því. En ég var fyrst og fremst lýsa skoðunum mínum á þessu ágæta frumvarpi.