151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

velferð dýra.

543. mál
[19:08]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þær upplýsingar sem ég hef um þetta mál koma beint frá Ísteka varðandi þessa þætti. Auk þess vil ég miðla af þeirri þekkingu sem ég hef alla vega í þessu. Greinilega hefur hv. þingmaður meiri þekkingu og aðra en ég. Ég hef aldrei heyrt um að menn, leikmenn, séu hlaupandi á eftir hryssum til þess. Auk þess er það gert þannig, eins og ég kom inn á í ræðu minni, að þegar blóð er tekið úr hryssu eru þær staðdeyfðar, þær eru settar í ákveðinn tökubás. Þetta er töluvert mikil aðgerð þegar verið er að gera þetta, hryssunum er safnað saman og þær eru settar í ákveðinn tökubás því að það tekur töluverðan tíma að taka úr þeim allt að 5 lítrum. Varðandi framleiðslu á hormóninu þá eru ekki allar hryssur eins, þær framleiða ekki allar jafn mikið hormón. Þannig er það nú. Þar af leiðandi er meðaltalið fimm sinnum og það má ekki taka meira en átta sinnum. Blóðtaka fer fram á tveimur og hálfum mánuði. Þannig er þetta, hv. þingmaður. Og ef hv. þingmaður hefur einhverjar aðrar upplýsingar en ég þá má vel vera að það standi. En þetta eru upplýsingar sem ég hef frá Ísteka. Þetta eru upplýsingar sem ég hef frá þeim bændum sem eiga hryssur og eru í þessum geira. Meira get ég ekki boðið upp á, hv. þingmaður.