151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

velferð dýra.

543. mál
[19:24]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Það er nú þannig, hv. þingmaður, að ég held að ekkert af þeim skepnum sem við höldum séu sjálfviljugar í því umhverfi sem við höldum þær, hvort sem það eru kýr, kindur, svín, hænur eða hvað má nefna, nú eða hross. Hv. þingmaður kom inn á að það sé stórmunur þar á — og ég biðst afsökunar á því ef ég hef ruggað einhverjum viðkvæmum bát þegar ég sagði að við gæfum blóð og það væru svona 12% sem við gæfum en þau 14% — að við gerðum þetta sjálfviljug en hrossin ekki. Ég reikna með því að í öllu okkar skepnuhaldi og búskap sé margt af því sem við þurfum að gera ekki alltaf eftir vilja skepnunnar eða hvernig þær myndu vilja haga sínum hlutum. Það er bara eðli málsins samkvæmt í búskap. En þegar menn stunda búskap þá fylgja þeir ákveðnum reglum. Í því samhengi sem við erum að ræða hér eru um 100 velferðarsamningar við þessa ágætu bændur sem stunda þessa iðju. Ég þekki fjölmarga af þeim bændum, fyrirtaksbændur, og ég er ekki viss um að það sé bara hægt að fá menn til að gera eitthvað annað. Við erum að framleiða eitthvað, við erum að gera eitthvað í okkar búskap, hvort sem það er blóðtaka eða kjötframleiðsla eða mjólkurframleiðsla. Því langar mig að spyrja þig, hv. þm. Guðmundur Ingi: Telur þú það vera þannig að allt sem bændur gera, sé gert með vilja dýra?