151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

velferð dýra.

543. mál
[19:29]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður spyr hvort mér þyki þetta eðlilegt. Það vill þannig til að það hormón sem er unnið úr þessu blóði er fyrst og fremst flutt út og jú, notað þar á svínabúum. Bannað er að nota svona hormón hér á landi þannig að kjötfjallið sem hv. þingmaður kom inn á á ekki við hvað okkur varðar í þessu samhengi. Þetta hormón er ekki leyft hér á landi. Varðandi hrossarækt þá getum við flokkað hana í tvo flokka. Það er annars vegar hrossarækt þar sem menn eru að búa til kynbótahross og þar þekki ég ekki til þess að menn séu að taka blóð úr merum, ég þekki það ekki þar. Síðan er það hrossabúskapur sem snýr að kjötframleiðslu og blóðtöku. Megninu af þeim folöldum sem þar fæðast er síðan lógað á haustin og nýtt á þann veg. Þannig að ég get alveg sagt það, hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, að ég sé ekkert óeðlilegt við þennan búskap. Þetta er bara ein af mörgum tegundum búskapar sem við stundum hér á landi. Mönnum hefur orðið hér tíðrætt um einhvern hagnað hjá ágætu fyrirtæki. Hér var komið inn á að veltan er um 1,5 milljarðar á ári. Ég hef svo sem ekki tölur yfir hagnaðinn. (IngS: Þú sagðir það.) Veltan er 1,5 milljarðar á ári.