152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:22]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni að sporin hræða í þessum efnum þegar kemur að sögu mats á umhverfisáhrifum framkvæmda hér á landi, lögbindingunni og öðru slíku og hvernig það var og hefur of oft verið reynt að fara á svig við þá löggjöf. Þetta bráðabirgðaákvæði er, eins og bent hefur verið á, leið fram hjá því að gera almennilegt umhverfismat. Því er ekki lokið eða það er galli á matinu en það er samt hægt að fá framkvæmdaleyfið. Þar liggur náttúrlega hundurinn grafinn í þessu máli og þar þurfum við að setja mjög skýr mörk. Það þarf að svara því, frú forseti, hvers vegna í ósköpunum það sé hugmynd sem yfirleitt sé hægt að skrifa inn í löggjöf að fyrirtæki geti fengið bráðabirgðaleyfi án þess að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Mat á umhverfisáhrifum er eðlilegt verklag við allar stórframkvæmdir, alveg sama hvað þær heita, allar slíkar stórframkvæmdir sem krefjast leyfis, hvort sem það er frá sveitarstjórnum, MAST eða Umhverfisstofnun. Það hryggir mig svolítið að þessum áratugum eftir að við fengum loksins löggjöf um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og síðan á umhverfisáhrifum áætlana sé enn verið að finna leiðir til að leyfa framkvæmdaaðilum að fara lengra en nauðsynlegt er. Og á kostnað hvers? Það er yfirleitt á kostnað samfélags, það er á kostnað umhverfisverndar, þótt e.t.v. megi græða einhverjar krónur í framhjáhlaupinu.