152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil eindregið taka undir þá ósk sem hér hefur verið komið á framfæri, þ.e. að gera hlé samstundis, bara nú þegar, á fundi Alþingis. Það er ekki bara af því að það er gott veður út, eins og einhver benti á, heldur er svo mikið undir sem snertir ekki síst traust almennings á þinginu, traust almennings á bankakerfinu og hvernig við viljum sjá það til skemmri og lengri tíma. Það liggur alveg ljóst fyrir með enn frekari upplýsingum sem við erum að fá núna, upplýsingum og skoðun sérfræðinga, eins og Sigríðar Benediktsdóttur sem hefur mikla reynslu af svona málum, að það er fyllsta ástæða fyrir hæstv. forseta til að hafa áhyggjur af því hvernig þetta mál er að þróast. Ég hef, og ég hef sagt það áður, verulegar áhyggjur af þessu sem fulltrúi flokks sem vill að enn frekari skref séu stigin í sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Það er bókstaflega af hálfu ríkisstjórnarinnar verið að eyðileggja það skref (Forseti hringir.) af því að við getum ekki tekið það skref meðan vantraustið í samfélaginu, vantraustið á þessu ferli, er með þeim hætti sem nú er. (Forseti hringir.) Við þurfum rannsóknarnefnd. Ég biðla til stjórnarþingmanna, ég biðla til ráðherra ríkisstjórnarinnar og forystufólks að stíga þetta skref til þess einmitt að undirbyggja það traust (Forseti hringir.) sem við þurfum svo sárlega á að halda þegar kemur að því að byggja upp fjármálakerfið okkar.