152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta áhugaverð pæling og eitthvað sem við þurfum að hugsa í alvöru. Í hjarta mínu vil ég trúa á hið góða í öllu fólki. Ég vil trúa því að fólk sem sækir um rekstrarleyfi geri það af góðum hug og telji umhverfismatið sem það er með í höndunum vera gilt og vel unnið. En með því að búa til þessar bakdyr inn í mögulegt tveggja ára bráðabirgðaleyfi þá skapast einmitt, eins og þingmaðurinn segir, þessi vandi. Við getum kallað þetta freistnivanda. Ef ég væri illviljaður framkvæmdaraðili gæti ég hugsað mér gott til glóðarinnar og látið vinna umhverfismat sem er gott og gilt og lítur vel út á yfirborðinu en eftir að framkvæmdir eru hafnar kemur einhver galli í ljós þannig að það fellur úr gildi. Þá er ég kominn inn í þennan heim bráðabirgðaleyfanna. Ég veit ekki, það þarf kannski eitthvert hugmyndaflug í að sjá hvaða vanda þetta gæti skapað en mér finnst eiginlega augljóst að einhvern vanda getur þetta skapað og kannski sérstaklega þann vanda sem við sáum árið 2018, að það er ekki sama hver er. Við sjáum það náttúrlega alltaf með þessa ríkisstjórn, það er ekki sama hver er þegar eitthvað kemur upp á. Sumir aðilar fá ásjá hjá stjórnvöldum og aðrir ekki. Sumir aðilar fá lög samþykkt til að komast fram hjá þeim reglum sem gilda (Forseti hringir.) og aðrir ekki. Sumir aðilar fá gullskreytt boðskort á bankaútsölu og aðrir ekki.