152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:55]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það væri auðvitað að æra óstöðugan að fara að telja endalaust aftur og aftur upp allt það sem hefur aflaga farið við þessa sölu. Það er auðvitað sérkennilegra en hægt er að lýsa að stjórnarliðar skuli ekki vera búnir að átta sig á því að málið versnar og versnar með hverjum klukkutímanum og það er í rauninni furðulegt að það skuli ekki vera búið að sættast á ósk okkar, ósköp eðlilega ósk um rannsóknarnefnd á vegum Alþingis. Síðan er annar vinkill á þessu máli, að það á auðvitað ekki að vera í höndum lítils meiri hluta á Alþingi að stöðva rannsókn á svona raðklúðri og risaklúðri sem hefur áhrif á traust bankanna í landinu. Þannig að, frú forseti, við verðum að fá rannsókn á málinu.