152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með því hvernig fjarvera stjórnarliða hefur verið að aukast með hverri klukkustundinni sem líður, sennilega af því að þau voru skömmuð fyrir að taka vel í hugmynd okkar um rannsóknarnefnd Alþingis í gær. Það segir sitthvað um stemninguna í stjórnarflokkunum, að fólk sem mætir hér ærlegt og tekur vel í góða hugmynd, sama hvaðan hún kemur, fái skömm fyrir þannig að það leggist í eitthvert krónískt þagnarbindindi og kannist ekki einu sinni við stuðninginn og fari allt í einu bara að taka undir einhverja smjörklípu um allt aðra rannsókn. Þessi fjarvera er líka dálítið slæm hvað varðar ráðherrana sem eiga hér mál á dagskrá og mig langar að ítreka beiðni mína til forseta við upphaf ræðu um málið sem við erum að fjalla um hér núna þar sem ég bað um að ráðherra kæmi í salinn, (Forseti hringir.) alla vega í hús. Var eitthvað orðið við því? Er ráðherra í húsinu? Og ef ekki, (Forseti hringir.) liggur þá ekki beint við að fresta þessum fundi alveg óháð öllum beiðnum okkar (Forseti hringir.) um það vegna rannsóknarnefndarinnar? Ef ráðherra er fjarverandi getum við ekki verið að fjalla um mál ráðherrans.