152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:24]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég spyr bara: Hvað hræðist ríkisstjórnin? Ef allt er í lagi og farið var eftir lögum og reglum, af hverju er þá ekki bara best að eyða tortryggninni og rannsaka þetta þannig að fólk, við öll, berum traust til þeirrar rannsóknar sem fram fer? Mér finnst þetta í fyrsta lagi rosalega dapurlegt. Þetta er ákveðið „déjà vu“ í mínum huga bara fyrir það sem gerðist eftir hrun. Ég var á móti þessari sölu akkúrat út af þessu eða m.a., skulum við segja, út af þessu. Það kemur mér ekkert á óvart hvað hér hefur gerst. Það eina sem kemur mér á óvart er að þetta er verra en jafnvel ég þorði að óttast. Ég gerði ekki ráð fyrir að þetta yrði svona slæmt. Ég gerði ekki ráð fyrir því að útrásarvíkingarnir yrðu bara boðnir velkomnir, (Forseti hringir.) þeim tekið opnum örmum og við myndum enn og aftur lúta í gras (Forseti hringir.) eða ríkisstjórnin myndi enn og aftur lúta í gras fyrir peningunum. (Forseti hringir.) Ég segi það aftur: Ég hef megnustu skömm á þessu.