152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:43]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég ætla bara í framhaldi af orðum hv. þm. Höllu Signýjar Kristjánsdóttur að fá að nefna og árétta það enn eina ferðina að þetta snýst ekkert um eitthvert vantraust á Ríkisendurskoðun. Það snýst um það að sú stofnun er mjög heppileg í ákveðin verkefni og þetta verkefni er ekki eitt þeirra. Ég ætla að rekja aftur það sem ég hef rakið hér áður í ræðustól. Ríkisendurskoðandi skoðaði einkavæðingu Búnaðarbankans, bæði 2003 og 2006, komst í bæði skiptin að því að það hefði verið í lagi með söluna. Síðan er stofnuð rannsóknarnefnd. Rannsóknarnefndin mokar upp drullunni og ríkisendurskoðandi er spurður í framhaldinu: Stendur þú við skoðun þína þar sem þú gafst heilbrigðisvottorð á einkavæðinguna? Já, segir Ríkisendurskoðun, ég geri það, en vísar í að hún fagni því að rannsóknarnefnd Alþingis hafi á grundvelli upplýsinga og ábendinga komist að réttri niðurstöðu og hafi á grundvelli víðtækra rannsóknarheimilda sinna sýnt fram á að gögn þau sem Ríkisendurskoðun aflaði sér í kjölfarið hafi verið lögð fram í blekkingarskyni. (Forseti hringir.) Rannsóknarnefnd hefur tæki og tól sem ríkisendurskoðandi hefur ekki. (Forseti hringir.) Ætlum við síðan í alvöru að vera í því ferli hér í maí að kjósa nýjan ríkisendurskoðanda á sama tíma og hann er að rannsaka þessa sölu? (Forseti hringir.) Og það kemur inn í mitt þetta ferli á meðan rannsóknin er og við erum einhvern veginn að greiða atkvæði um það hér í þinginu og þá með þetta mál brennandi (Forseti hringir.) á okkur, takandi afstöðu til þess út frá þessari bankasölu. Þetta gengur ekki upp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (BLG): Forseti þakkar aftur fyrir tækifærið til að nota bjölluna.)