152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[18:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Ég tek undir þetta. Gott að málið er komið alla vega á þennan stað þó að eflaust þyki þolendum ekki framvindan vera nægilega hröð. Engu að síður er verið að setja þetta í, að mínu mati, nokkuð faglegt ferli en það er mikilvægt að þingið fari mjög vel yfir þessi atriði sem þarna koma fram, ef það er hægt að gera málið enn betra af hálfu þingsins. Varðandi hina rannsóknarnefndina þá hefði ég viljað að við hefðum afgreitt hana í dag og þá hefðum við sparað tíma. En ég ætla ekki að dvelja við það. Það er bara einhver kerskni í mér núna hvað það varðar. Hitt málið, varðandi vistheimilismálin sem slík, þá var það sem gerðist með þau og hvernig þau voru gerð upp kannski ekki síst því að þakka að við áttum í rauninni eina manneskju sem allir báru mikla virðingu fyrir og allir báru traust til; fyrrverandi hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttur sem með sínum karakter, sínu innsæi og persónuleika, sinni mennsku, náði að fanga og faðma þennan óendanlega sársauka sem fylgdi og tengdist vistheimilunum á þann ömurlega hátt. Ég veit að það er metnaður í öllum flokkum til að vinna þetta vel. Ég veit það líka að við munum hafa hugfast að þeir sem veljast til verksins verði þannig að það byggi undir traust. Það er líka hlutverk rannsóknarnefnda og þeirra sem í þær veljast að byggja undir traust, eins og Guðrún Ögmundsdóttir gerði á sínum tíma. Það var ferill sem við eigum að líta til í þessu máli um vöggustofurnar og ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðherra sé mér sammála. En ég styð þetta mál og ég vona að það fái góða yfirferð í þinginu.