152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[18:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Bara til nánari skýringar á því sem hv. þingmaður spurði um þá höfum við reynt í samráði við borgina að leggja mat á það hversu langan tíma þessi rannsókn gæti tekið og er gert ráð fyrir því að hún geti tekið tæpt ár, en það er sett fram með öllum fyrirvörum um að stundum vinda slíkar rannsóknir upp á sig. Það er gert ráð fyrir því að þetta geti snert u.þ.b. 1.200 börn sem voru vistuð á vöggustofum, fólk sem er nú orðið fullorðið, gæti verið á aldrinum frá kannski 49 ára fram á áttræðisaldur, sé það á lífi. Við vitum það að borgarskjalasafn hefur fengið 107 fyrirspurnir frá einstaklingum um trúnaðargögn varðandi dvöl þeirra á vöggustofunum þannig að það er a.m.k. hópur sem við vitum um. En þetta er okkar áætlun, eftir að hafa farið yfir málið með borginni, að þetta geti verið um 1.200 börn.

Ég fagna því sem hv. þingmaður segir. Ég vona að það sé þverpólitískur stuðningur við þetta hér og ég er þess fullviss eftir samskipti mín við borgina að þau munu vanda mjög til verka. Ég finn það bara á öllum mínum samskiptum við borgarstjóra og hans fólk í þessu máli.