152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[18:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að koma hingað í þingsal og mæla fyrir þessu mikilvæga máli. Það hefur verið býsna kröftug umræða hér í allan dag varðandi aðrar rannsóknarnefndir og ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún átti sig á mikilvægi þess að verið sé að veita nefndum eða þar til bærum aðilum tæki og tól til að rannsaka það sem þarf að rannsaka með öllum tiltækum ráðum. Hér þarf að leggja fram frumvarp til að veita Reykjavíkurborg heimild til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa af því að slík heimild er ekki til staðar. Það þarf í þessu frumvarpi að tilgreina hvaða heimildir umrædd nefnd mun hafa til að afla gagna, hvernig hún skuli haga störfum sínum, hvort hægt sé að krefja fólk svara eða hvort fólk geti skorast undan því að svara o.s.frv. Það er nákvæmlega þetta sem skiptir máli þegar farið er af stað með rannsókn, að það séu lagaheimildir fyrir því að rannsókn eigi sér stað og með hvaða hætti, af því að nefndir af þessu tagi eru ekki eins og lögregla sem hefur víðtækar heimildir til rannsókna. Nefndir hafa mjög takmarkaðar heimildir. Sama má segja um Ríkisendurskoðun sem hefur takmarkaðar heimildir til þess að spyrja, til að krefjast svara, krefjast gagna. Þess vegna vil ég einfaldlega að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji það ekki mikilvægt að það sé einmitt skýrt skilgreint í lögum hvaða heimildir rannsakendur hafi og, ef við viljum að rannsókn sé með fullnægjandi hætti, að verið sé að veita þessar heimildir, (Forseti hringir.) að löggjafinn veiti þær heimildir sem nauðsynlegar eru til þess að rannsókn geti átt sér stað.