Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

sjúkratryggingar.

679. mál
[17:13]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir hennar andsvar. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um að ástandið í dag sé óásættanlegt. Það er þannig og það hefur verið þannig undanfarin ár frá því að samningar runnu út í lok árs 2018. Ég veit að sérfræðilæknar hafa óskað eftir samtali við stjórnvöld til þess að reyna að ná samningum. Það hefur verið samtal í gangi og sérstaklega núna undanfarið hefur mikið og þétt samtal verið í gangi á milli ráðuneytisins og sérfræðilækna varðandi það að verja í lögum þá þjónustu sem við þurfum að veita. Við erum auðvitað með ríkisreknar stofnanir sem veita þjónustu, sem eru með þessa sérfræðilækna sem eru einmitt að vinna á báðum stöðum, vissulega, og erum með þessa sérsamninga við ríkið. Ég tel að það sé ekki vænlegt til árangurs að fara í gerðardóm, líkt og ég hef sagt hér áður.

Varðandi lausnir. Ég er ekki með eina töfralausn. Ég held að ef við værum með hana værum við væntanlega búin að bæta ástandið því að það er vilji allra að það verði gert. En ég held að það sé afar mikilvægt á meðan setið er við samningaborðið að við höfum trú á því að samningar náist. Heilbrigðisráðherra hefur ítrekað sagt að hann leggi ríka áherslu á að ná samningum við sérfræðilækna og það er unnið að því núna dag og nótt að reyna að ná þessum samningum. En ég er alveg sammála því hjá hv. þingmanni um að það er ekkert réttlátt að veika fólkið greiði þennan aukakostnað. Ég kom líka að því í mínu máli hér áðan. Þess vegna er afar mikilvægt, enn og aftur, að þessir samningar náist.