Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

sjúkratryggingar.

679. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem við erum að gera með þessu frumvarpi er að leggja fram lausn og draga fram í dagsljósið þetta ástand og leggja hv. stjórnarþingmönnum og hæstv. ríkisstjórn lið í þessu máli, því að það ríkir greinilega algjört úrræðaleysi. Ég get ekki séð, frú forseti, að það sé hægt — að þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda geti sætt sig við það að við hér, löggjafarsamkundan, séum bara að vonast eftir því málið muni einhvern veginn leysast. Málið hefur verið í hnút í fjögur ár. Þetta er bara ekki í boði. Við þurfum að leysa þetta mál. Það er ekki hægt að una þessu ástandi lengur. Það var náttúrlega aldrei gott. Við þurfum að setja inn í lögin einhverjar skorður. Við leggjum til að það sé reynt að ná samningum í níu mánuði og ef það tekst ekki þá taki gerðardómur við. Þegar mál er sett í gerð þá eru teknar saman kröfur ríkisins og kröfur sérgreinalæknanna og þeirra sem veita þjónustuna og sett niður einhver lausn á málinu svo kerfið geti haldið áfram. Mér finnst það skipta máli í þessari umræðu, frú forseti, að heilbrigðiskerfið okkar er blandað að því leyti að við erum með opinberan rekstur og svo með einkarekstur. En hvort tveggja verður að virka og vinna saman en það gerir það ekki. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála því að það þurfi að breyta lögum um sjúkratryggingar til að taka á þessu vandamáli.