Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

stjórn fiskveiða.

105. mál
[17:19]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum, um tilhögun strandveiða. Gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins er á þessu frumvarpi ásamt mér, þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Frumvarpið hljóðar svo:

„1. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:

a. 1. tölul. 6. mgr. fellur brott.

b. Við 8. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimild þessi gildir þrátt fyrir að búið sé að veiða upp í það aflamark sem ráðstafað er til strandveiða innan fiskveiðiársins skv. 1. mgr. 6. gr. a.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. að málið var áður flutt á 150. og 151. og 152. löggjafarþingi, 59. mál, en náði ekki fram að ganga. Nú er ég alveg ofboðslega bjartsýn og brosandi, frú forseti, og í ljósi erfiðrar þjóðhagsstöðu víðs vegar um landið og sérstaklega í viðkvæmum sjávarbyggðum þá gæti ég aldrei ímyndað mér hvers vegna ekki yrði utan um þetta frumvarp tekið og það gert að lögum ekki seinna en strax eftir að hafa gengið í gegnum sitt eðlilega ferli í fastanefndinni.

Tvær umsagnir bárust með frumvarpinu á 150. löggjafarþingi. Strandveiðifélagið Krókur lýsti yfir stuðningi við frumvarpið og kallaði eftir enn frekari breytingum á strandveiðikerfinu. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lýstu hins vegar yfir áhyggjum af efni frumvarpsins og töldu að kerfið óbreytt dygði til að tryggja skilvirkar strandveiðar. Já, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, gamla góða LÍÚ er samt við sig, breytist ekki mikið. Það er ekki nóg fyrir þá að vera búnir að fara eins og eldur um akur í gegnum meira og minna allt sjávarríki sveitarfélaganna í kringum landið og heimildirnar þar og skilja byggðirnar eftir í sárum, algjörum sárum, heldur finnst þeim alveg nóg að fleygja 5,3% af heildaraflaheimildum í strandveiðisjómenn. Það er alveg nóg.

Á 152. löggjafarþingi barst umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda. Í umsögninni lagði sambandið áherslu á að lögfesta þyrfti rétt til veiða í 48 daga. Nú mæli ég fyrir þessu frumvarpi í fjórða sinn og við það hef ég bætt nýrri málsgrein sem tryggir einmitt rétt smábátaeigenda til að veiða í 48 daga á hverju strandveiðitímabili. Hvað er svona merkilegt við það? Ég ætla nú ekki að fara í gamla góða textann í laginu, hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður, það passar ekki hér, þá yrði maður nú aldeilis tekinn og hengdur upp á snúru. Nei, hvað er svona merkilegt við það að tryggja 48 daga af 365 dögum á árinu til strandveiðisjómanna? Ég get engan veginn náð upp í það, sérstaklega ekki þegar núna er ráðherrann í matvælaráðuneytinu, sá ráðherra sem fer með mál sjávarútvegsins, einmitt í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, hreyfingunni sem hefur boðað það leynt og ljóst að það þurfi að efla strandveiðar, það þurfi að koma til móts við brothættar sjávarbyggðir í kringum landið. En það þarf samt sem áður að skipa einhverja 46 manna nefnd eða stýrihóp, ég veit ekki eiginlega hvað á að kalla þetta því að það er orðið svo mikið af nefndum og stýrihópum og hinu og þessu sem þurfa að komast að niðurstöðu um hið augljósa, það þarf að slá Íslandsmet í fjölda manna í nefnd til að komast að því raunverulega hvernig við eigum að haga þessum málum.

Með frumvarpinu sem ég er að mæla fyrir hér er einnig lagt til að fellt verði brott ákvæði um strandveiðar í lögum um stjórn fiskveiða sem setur þau skilyrði — hugsið ykkur, hlustið nú vel — að óheimilt sé að stunda veiðar á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og líka náttúrlega á almennum frídögum. Ráðherra getur sem sagt bannað þessar strandveiðar. Hvers vegna í veröldinni? Hér er verið að tala um að tryggja 48 daga af 365 dögum ársins til strandveiða. Einstaklingar, lítil einyrkjafyrirtæki, hafa komið sér upp rándýru úthaldi upp á tugi milljóna í mörgum tilvikum til þess að fá að sækja sjóinn og helst af öllu myndi stórútgerðin vilja þurrka þá út enda er það alveg augljóst að stórútgerðin hirðir til sín langstærsta hlutann af hinum svokallaða byggðakvóta sem ætlaður hefur verið til þess að styðja við sjávarbyggðirnar og viðkvæmar brothættar byggðir í kringum landið.

Frú forseti. Það er hrein og klár skömm að þessu. Og ekki nóg með það að atvinnufrelsi sé náttúrlega fótum troðið, atvinnufrelsi stjórnarskrárinnar er náttúrlega hent í ruslið eins og mörgu öðru sem sú ágæta stjórnarskrá okkar boðar, það er ekki nóg með það, heldur ráða sjómennirnir ekki sjálfir hvaða daga þeir sigla. 12 dagar í mánuði sem þeim er úthlutað, 12 dagar í mánuði í fjóra mánuði á árinu, fjórir sinnum 12, ég er rosa góð í reikningi, eru 48 dagar. Nei, þeir fá ekki að ráða þeim heldur. Þú, ágæti sjómaður, sittu heima föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Það skiptir engu máli þótt viðri vel til sjósóknar. Sittu heima, farðu frekar hina dagana þegar hugsanlega er ólgusjór, vont veður og bræla. Drífðu þig bara í bræluna, tökum sénsinn á því að þú lendir í einhverjum ógöngum og sjávarháska í ofsaveðri af því þú ert kappsamur og vilt sækja sjóinn þá fáu daga sem þér eru úthlutaðir á árinu. Hvers lags stjórnvöld eru það sem koma upp slíku kerfi? Sem láta sér standa nákvæmlega á sama, ekki bara um sjávarbyggðirnar í kringum landið heldur um strandveiðisjómennina sem kjósa það að sækja sjóinn á trillunni sinni, á litla smábátnum sínum.

Núna er það nýjasta, hugsið ykkur bara — við erum náttúrlega öll eða flest okkar búin að horfa á þessa stórkostlegu þætti um verbúðina, sem eru einhver besta heimild og uppvakning á hörmulegum afleiðingum kvótakerfisins á sínum tíma, hörmulegum afleiðingum, framsali kvóta og hvaðeina, þar sem þeir ríku fá aldrei nóg og græðgin svoleiðis ríður hér röftum. Það er eiginlega ekki hægt að koma orðum að því. Nei, það er ekki nóg. Við erum að hlaða núna í aðra verbúð. Nú er það Tröllaskaginn sem er undir, Siglufjörður. Það er búið að hreinsa allt úr litla fallega sjávarplássinu sem ég ólst upp í, Ólafsfirði. Þar er höfnin, bryggjurnar, allt saman, meira og minna ónotað, til einskis brúks vegna þess að það er búið að hirða burtu allt sem áður var. Núna eru það örlög Siglfirðinga líka þannig að Fjallabyggðin eins og hún leggur sig, Tröllaskagi, getur í rauninni sleppt því að velta fyrir sér að vera með einhverja fína frystitogara og fá útsvarstekjur af togarasjómönnum sínum þar vegna þess að þetta mun flytjast til Vestmannaeyja. Hallelúja fyrir Vestmannaeyjar. Ég er ekki að segja að það þurfi að öfunda þá af því en ég hef meiri skömm á þeim sem eru búnir að maka krókinn og hafa í rauninni fengið aðgang að sameiginlegri auðlind okkar. Og þetta eru þakkirnar. Nú er Rammi búinn að sameinast Ísfélaginu í Vestmannaeyjum nema Ísfélagið á 70%. Eftir eru 30% á Siglufirði. Og hvað segir það mér og hvað segir það ykkur, ágætu áheyrendur og áhorfendur og frábæru hv. þingmenn, þrír, sem eruð í salnum? Hvað segir það okkur? Það segir okkur það að auðvitað mun allt saman fara frá Siglufirði, nema náttúrlega þeir frábæru einstaklingar sem hafa byggt upp af fórnfýsi og óeigingirni sveitarfélagið sitt og sjá svo sannarlega ekki í krónurnar til að svo megi verða. Það væri vel ef fleiri sveitarfélög ættu slíka snillinga eins og Siglufjörður getur státað af. En hvað um það.

Það hefur aldrei verið meiri ástæða til að efla strandveiðar en einmitt nú. Aldrei. Flokkur fólksins hefur mælt fyrir frumvarpi um frjálsar handfæraveiðar. Eitt er algerlega á hreinu og verður aldrei hægt að vefengja: Það að vera með eitthvert færi úti á skaki með krók mun seint ógna lífríkinu í kringum landið. Nei, frekar skulum við snurpa bara upp í kálgarð, snurvoðarbátar og stórir togarar, komið þið bara inn fyrir fjórar mílurnar helst, dragið bara inn á svefnherbergisgólf, skrapið botninn — þetta er nú aldeilis umhverfisverndin sem hér er í gangi. Það er slík lítilsvirðing gagnvart lífríkinu, gagnvart sjávarplássunum, gagnvart viðkvæmum brothættum byggðum að varla er hægt að finna annað eins á byggðu bóli, enda líklega alls staðar hlegið að þessari stjórnun.

Á strandveiðiárinu 2020 veiddu 668 bátar samtals 11.840 tonn, þar af 10.738 tonn af þorski. Veiðarnar voru stöðvaðar, að sjálfsögðu voru þær stöðvaðar, 19. ágúst, tveimur vikum fyrir áætluð lok strandveiðitímabilsins. Strandveiðiárið 2021 veiddust 12.170 tonn, þar af 11.159 tonn af þorski, og voru veiðar stöðvaðar 18. ágúst það ár, einnig tveimur vikum fyrir áætluð lok strandveiðitímabilsins. Í fyrra, hið frábæra ár 2022, veiddust 12.557 tonn yfir strandveiðitímabilið, þar af 10.981 tonn af þorski, og getið nú bara hvað. Veiðunum var hætt, þær voru hreinlega stöðvaðar 21. júlí, réttum sex vikum fyrir lok strandveiðitímabilsins. Þið, ágætu strandveiðisjómenn, pillið ykkur upp með handfærin og strandveiðataktíkina og komið ykkur í land. Það eru ekki til fleiri heimildir fyrir ykkur. En sjáið til. Strandveiðisjómenn þurfa að vigta aflann sinn í gegnum markaðinn. Þeir svindla ekki á vigtinni. Hvað gerir stórútgerðin? Hvernig skyldi hún fá að vigta aflann sinn? Jú, hún gerir það bara sjálf. Ef félagið er bæði með veiðar og vinnslu þá vigtar það bara sjálft. Þetta er nákvæmlega eins og ég tæki bara hv. þm. Halldóru Mogensen, sem brosir þarna fallega, og sparkaði í hana fyrir framan alla og síðan myndi ég náttúrlega dæma í málinu sjálf. Það er nákvæmlega það sem er gert hér. Stórútgerðin ræður hér lofum og lögum. Hún stýrir stjórn fiskveiða frá A til Ö. Hún hefur hér alveg óumdeilt hagsmunagæsluaðila sem svífast einskis svo þeir geti haldið áfram að safna að sér heimildunum, þjappa þeim saman á þessar örfáu hendur þar sem eru milljarða tuga og aftur hundruð milljarða fyrirtæki sem greiða sér tugi milljarða í arð úr okkar sameiginlegu auðlind. En hvað greiða þeir nú aftur í auðlindagjald? Hvað greiða þeir í auðlindagjald af þessu öllu saman? Jú, ríkisstjórnin hér hefur lækkað auðlindagjaldið hjá þeim. Við sækjum ekki peningana þangað sem er nóg af þeim fyrir. Nei, hvorki þangað eða í bankana þar sem eru allar hirslur fullar fjár. Við skulum bara reyna að troðfylla þær enn þá meira svo út úr öllu flæði. Á meðan býr fólk við sára neyð og lítil sjávarpláss úti um allt land eru að leggja upp laupana, berjast í bökkum.

Það er á sjöunda hundrað strandveiðisjómenn sem vilja sækja sjóinn. Ég segi bara, virðulegi forseti: Það er eiginlega ekki hægt annað en að verjast brosi þegar maður veltir fyrir sér hvað í veröldinni gæti stutt þessa framgöngu og þessa framkomu gagnvart þessum afmarkaða hópi vinnandi fólks í landinu. Það eru afleidd störf í litlu sveitarfélögunum af nákvæmlega þessari vinnu, hvort sem það er í sambandi við rafmagnið eða hvaðeina annað sem er; netið, úthaldið yfir höfuð. Öll fjölskyldan jafnvel getur verið að sinna þessu, öll fjölskyldan getur haft vinnu nákvæmlega við þetta og við erum að tala um hásumarið eða fjóra mánuði á ári, 48 daga. En það má ekki tryggja það. Nei, við gætum fengið óvart 6% af heildaraflanum og hamingjan sanna ef það yrðu nú 7% af heildaraflanum, þá færi náttúrlega allt á hliðina. Við skulum frekar lofa stórútgerðinni að vanreikna það raunverulega magn af fiski sem þeir koma með í land og vigta sjálfir. Það er vitað og það er þekkt að það er hér tvöfalt vigtarkerfi. Þeir eru að vigta ísinn, alveg rosa mikið, ísinn er jafnvel kannski á bilinu 3–12% af því sem vigtast upp úr skipinu. Á hverjum skyldi það nú aftur bitna? Í fyrsta lagi á sjómönnunum, á launum sjómanna. Það er verið að að hælast og státa af tíu ára samningi við sjómenn. Það fyrsta sem mér datt í hug: Ætli sé búið að tryggja það að sjómenn séu ekki lengur látnir greiða hlutdeild af olíukostnaði skipanna? Skyldu sjómenn með þessum tíu ára samningi kannski vera undanþegnir því að greiða fyrir umbúðirnar, hluta af umbúðunum sem er pakkað utan um fiskinn um borð í skipunum? Ætli hafi verið felld niður þessi klásúla um að sjómenn ættu að greiða allt að 10% í nýsmíði skipanna? Nei, það er ekkert svoleiðis.

Við flutningsmenn þessa frumvarps teljum að með því að fella út ákvæði sem bannar veiðar, t.d. á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og heimilar ráðherra að banna þessar veiðar á almennum frídögum, þá gefist strandveiðisjómönnum sjálfsagt frelsi til að velja sína veiðidaga sjálfir. Um leið öðlast þeir meira öryggi við sjósókn sína þar sem síður er lagt upp í veiðiferð í vonskuveðri sem getur og hefur kostað líf. Það er okkar hér, virðulegi forseti, það er löggjafans, það er stjórnvalda að sjá um það að við tryggjum í rauninni ekki bara afkomu og búsetuskilyrði jafnt á landinu heldur ber okkur skylda og það er allsherjarregla sem skyldar okkur til þess að vernda þegnana eins og kostur er. Það að ýta þessum sjómönnum út í vonskuveður til að ná einhverjum fyrirframlofuðum dögum sem bara má veiða á akkúrat þessum tíma — þetta er, ég er orðin svo æst að ég veit ekki hvort ég á að halda áfram.

Þetta er mér hjartans mál. Ég er að mæla fyrir þessu í fjórða sinn. Við erum búin að breyta þessu þannig að það ætti að taka af allan vafa og það hlýtur bara að vera að VG standi nú við þó ekki væri nema brotabrot af öllum þeim fögru fyrirheitum sem þeir hafa verið að senda frá sér til sjávarbyggðanna og strandveiðisjómanna. Fyrir síðustu kosningar fóru þeir einmitt sem eldur um akur um Norðvesturkjördæmi til þess að boða það og segja það hvað væri bjart fram undan hjá strandveiðisjómönnum. Bara ef þið kjósið okkur og við fáum að ráða. Og þeir hafa ekki bara verið kosnir heldur eru þeir líka með ráðherrann og ráðuneytið hreinlega sem fer með málaflokkinn. Ég skora á hæstv. ráðherra sjávarútvegs að standa nú við stóru orðin. Það er í rauninni lágmark að við tryggjum þessa 48 daga og menn séu ekki reknir heim eins og í fyrra, sex vikum áður en strandveiðitímabilinu lýkur. Þvílík skömm. Ég trúi varla að ég sé að segja þetta. En þetta er staðreynd. Þetta er satt. Hugsum um það hvernig úthaldinu er í raun háttað. Sjómaðurinn sem hlakkar til að fara að takast á við það sem hann nýtur sín best við, að fá að vera á trillunni sinni, hann þarf að taka trilluna upp, skvera hana af, skoða og græja og gera öll mælitæki og öll veiðarfæri til, það er verið að mála og ég veit ekki hvað og hvað. Svo er báturinn settur niður og nú á að halda af stað. Flestir náttúrlega með þá von í brjósti að þeir geti a.m.k. haldið út og fengið frið til að sækja sjóinn. En við skulum líka átta okkur á því að það er ekki nóg með þetta heldur eru þeir líka heftir af því hvað þeir koma með að landi og hversu mikið magn þeir koma með að landi og hversu marga klukkutíma þeir mega vera á sjó á þessum 12 dögum. 650 kíló má koma með að landi af slægðum þorski, takk fyrir. Punktur. Ekki meir. Hvað ætli verði um afla sem óvart veiðist og er tekinn inn fyrir en er refsað fyrir að koma með í land? Ætli það sé svo að þeir sem vita að þeim er refsað fyrir að koma með ákveðinn fisk í land, taki hann samt og slægi og geymi til þess að láta refsa sér þegar komið er í land? Eða skyldu þeir bara henda honum? Ég veðja á það síðara. Það er líka með hreinum ólíkindum að það skuli ekki þegar hafa verið búinn til hvati til þess að við fáum allan afla í land, til þess að við fáum að njóta og nýta þau verðmæti sem synda í sjónum hringinn í kringum landið. Það er af ýmsu að taka. Í þessu frumvarpi er ég reyndar ekki að taka á nákvæmlega því máli.

Það skal sagt að strandveiðar eru óumdeilt ómetanleg lyftistöng fyrir sjávarbyggðirnar allt í kringum landið, sjávarbyggðir sem margar hverjar eiga í vök að verjast og hafa verið skildar eftir í sárum eftir að núgildandi framsalsheimildir og kvótakerfi hafa gert það að verkum að allar aflaheimildir til stærri útgerðar hafa verið seldar eða hrifsaðar þaðan á brott. Það verður að vinda ofan af þessu, virðulegi forseti. Það er orðið tímabært að við tökum saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, og tryggjum landsbyggðinni okkar þátttöku í samfélaginu eins og landsbyggðin getur orðið sjálfbær og eins og sjávarplássin geta orðið sjálfbær og bjargað sér sjálf. Ég set punktinn hér, virðulegi forseti, og vona það besta. Ég vísa frumvarpinu alveg örugglega rétta leið, sem ég náttúrlega man ekkert hvert en hæstv. forseti, þú græjar það fyrir mig.