154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

91. mál
[18:47]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessu mikilvæga máli, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja. Mig langar að byrja á því að vitna í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands um atvinnufrelsi þar sem segir í 75. gr., með leyfi forseta:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Notað er orðalagið að „setja skorður“. Í dag eru skerðingar á atvinnutekjum öryrkja það miklar að það má spyrja hvort ekki sé verið að setja atvinnufrelsi öryrkja skorður með þessum skerðingum. Þeir öryrkjar sem fá greiðslu örorkulífeyris vita að þeir mega búast við ýmsum skerðingum afli þeir sér atvinnutekna. Það er grundvallaratriði að öryrkja, sem er með skerta starfshæfni og fær örorkubætur frá almannatryggingum, eru settar skorður við því að prófa, gera tilraun og athuga hvort hann geti starfað á vinnumarkaði. Ef hann gerir það þá skerðast bætur almannatrygginga. Þetta eru skorður á atvinnufrelsi sem ég get ekki séð að almannahagsmunir krefjist. Ég get bara ekki séð það, því miður. Ég hefði haldið það að samfélagið ætti að stuðla að því og hvetja öryrkja með skert aflahæfi vegna örorku sinnar að prófa á eigin forsendum hvort hann geti ekki farið á atvinnumarkaðinn, vinnumarkað, og athuga hvort hann geti raunverulega unnið eða ekki. Nei, þessi hvati er ekki til staðar. Það er verið að skerða strax þær bætur sem hann fær og hann er raunverulega hnepptur í fátækt að mörgu leyti. Hvatinn er enginn.

Öryrkjar eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af framtíðarhorfum sínum ef þeir gera tilraun til að hefja atvinnu á ný, en þeir hafa áhyggjur af framtíðarhorfum sínum ef þeir hefja þessa tilraun. Þeir geta með það sama dottið út af bátnum og líka getur það leitt til þess ef tilraunin mistekst að litið verði svo á að örorka verði minni fyrir vikið. Við teljum í Flokki fólksins að þvert á móti ættu þeir að eiga von um betra líf, betri lífskjör og það sé hvati fyrir hendi svo að í tvö ár geti öryrki aflað sér atvinnutekna án þess að þær teljist til tekna samkvæmt þeim kafla í almannatryggingalögum sem kveður á um skerðingar. Réttur til starfa án skerðinga vegna atvinnutekna myndi stofnast við tilkynningu til Tryggingastofnunar um að hann hyggist nýta þessa heimild og þá heldur hann bótunum í tvö ár. Ef einhver skyldi halda því fram að hann ætli að fara að græða svo rosalega mikið á þessu öllu saman — ef hann væri með hærri tekjur en meðaltekjur viðkomandi starfsstéttar myndi mismunurinn teljast til tekna samkvæmt ákvæði í 30. gr., sem er sú grein sem við erum að fjalla um hér. Þetta hefur verið prófað annars staðar. Svipað úrræði skilaði góðum árangri í Svíþjóð. Þar sneru 30% þátttakenda aftur út á vinnumarkaðinn eftir tilraun til starfa, 30%. Ef Íslendingar myndu prófa þetta og gefa þessa heimild um að öryrkjar geti gert tilraun til að vinna í tvö ár án þess að skerðingar komi til — þá væri endurmat og kæmi í ljós hvort þeir gætu unnið áfram eða ekki — gæti það skilað því að tugir prósenta öryrkja yrðu áfram þátttakendur á vinnumarkaði. En nei, við ætlum ekki að gefa þessa heimild. Við höfum alla vega ekki gert það enn, en núna er Flokkur fólksins enn og aftur að mæla fyrir frumvarpi, í fimmta sinn, um það að gefa öryrkjum tækifæri og hafa þennan hvata í lögum um að þeir geti farið að vinna kjósi þeir svo og treysti sér til þess. Við fluttum þetta á 150., 151., 152. og 153. löggjafarþingi og svo aftur í ár.

Hér er um mikið réttlætismál að ræða og ég tel að það eigi stoð í 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi, að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Ef öryrki kýs að fara að vinna vinnu sem hann treystir sér til og hann velur þá á hann að fá að gera það á sínum eigin forsendum. Það eru ekki almannahagsmunir sem krefjast þess að hann eigi að fá skerðingar. Ég tel að grundvöllurinn sé ekki til staðar, svo mikið er víst. Samfélagið hefur ríka hagsmuni af því að allir þegnar hafi hvata til vinnu og aukinn starfskraftur er samfélaginu til góðs. Ríkissjóður fær skatttekjur af atvinnutekjum öryrkja og koma þessar skatttekjur því að einhverju leyti til móts við auknar greiðslur almannatrygginga. Ég tel reyndar að það verði ekki auknar greiðslur ef öryrki fer á vinnumarkað í tvö ár. Þær verða náttúrlega hinar sömu. Síðan gæti þetta fallið niður eftir tvö ár og þá gæti öryrkinn að hluta til verið áfram í starfi og fengið atvinnutekjur og þá endurmat örorku miðað við það starf sem hann vill vinna.

Takist tilraunin ekki þá erum við með ákvæði um það að einstaklingur sem gerir tilraun til starfa eigi ekki að hafa áhyggjur af því að tímabundin aukin þátttaka kunni að leiða til réttindamissis ef honum hrakar og hann þarf að draga úr vinnu aftur. Það er mjög mikilvægt atriði að þetta sé áhættulaus tilraun hjá öryrkjanum, að hann sé ekki að taka áhættu með það að lenda í skerðingum og líka réttindamissi ef tilraunin tekst ekki. Hann hefur því bara „the upside“, eins og sagt er á ensku, hann hefur bara ávinninginn af því. Hann mun ekki tapa á því. Það er gríðarlegur hvati í því að gera tilraun sem leiðir einungis til þess að hann taki virkan þátt í samfélaginu, fái sjálfsaflafé, fái atvinnutekjur, er virkari í samfélaginu, mæti til vinnu á þeim forsendum sem hann treystir sér til, þeirrar vinnu sem hann finnur sér. Andleg heilsa batnar gjarnan ef fólk getur tekið virkan þátt í samfélaginu. Það vita allir. Því er þessi tilhögun til þess fallin að bæta andlega líðan öryrkja og fjölskyldna þeirra.

Núverandi kerfi er hreinlega mannskemmandi, ef við getum orðað það svo, það að öryrki fái að vita að hann fái bætur frá almannatryggingum en ef hann vogi sér að prófa og athuga hvort hann geti farið að vinna eða ekki þá fái hann skertar bætur, þá muni ríkið sjá til þess — nei, við ætlum að refsa þér ef þú prófar og reynir eitthvað að gera hérna, þú ert kominn á bætur og átt bara að vera í þínu boxi, átt bara að vera heima og þiggja bæturnar. Það er alveg með ólíkindum hvað þetta dregur úr athafnafrelsi fólks og frelsi fólks til sjálfsafla og þetta er klárt brot á atvinnufrelsi. Ég held að allir sem skoða þetta mál ættu að skoða þetta út frá stjórnarskrárákvæðinu og réttindum fólks þegar kemur að af því að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Ég tel að þetta sé mikilvægt mál sem hvetur til aukinnar atvinnuþátttöku. Kveðið er á um að ekki megi líta til atvinnuþátttöku á meðan öryrki nýtir sér úrræðið þegar hann er metinn að nýju takist ekki tilraunin.

Reynslan sýnir náttúrlega að búið er að hafna þessu máli og það dagar uppi í nefnd. Það mun koma sá tími að litið verður á þessar skerðingar þegar búið verður að leiðrétta þetta mannréttindabrot og menn munu spyrja sig: Hvernig stóð á því að við höfðum svona kerfi hérna? Hvað var í gangi? Hvers konar samfélag var það sem hafði svona kerfi? Fólk mun bara hrista hausinn. Það er búið að prófa þetta með frábærum árangri í Svíþjóð þar sem 30% þátttakenda sneru aftur á vinnumarkaðinn eftir tilraun til starfa og svipað í Hollandi. Nei, við viljum ekki gefa öryrkjum heimild til þessarar tilraunar.

Þetta frumvarp fer til velferðarnefndar og ég vona að velferðarnefnd sjái út á hvað þetta frumvarp gengur og veiti því brautargengi þannig að það geti farið til 2. umræðu, 3. umræðu og verði svo að lögum. Það er undir velferðarnefnd komið.