131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[15:40]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku þegar við ræddum þetta mál sagði ég, og var ansi bláeygð þegar ég sagði það, að ég væri sannfærð um að allir sanngjarnir menn sem litu á þessi mál núna í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á markaðnum og tækninni á undanförnum árum sæju að það væri ekki skynsamlegt út frá almannahagsmunum að selja grunnnet Símans við þá sölu sem þar er fyrirhuguð. Það getur vel verið að það sé skynsamlegt út frá söluverði ef menn eru bara að horfa á það hvaða aura þeir fá í ríkiskassann, en ekki út frá almannahagsmunum.

Ég hef talað við marga menn bæði í stjórnarliði og meðal stjórnarandstæðinga og ég veit að mjög margir eru hugsi yfir þessum málum og óttast að grunnnetið sé selt með.

En síðan ég sagði þetta hefur hæstv. forsætisráðherra verið að halda ræður norður á Akureyri eða hvar það nú var þar sem hann sagði að það kæmi ekki annað til álita en að grunnnetið væri selt með. Hann valdi þann staðinn, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson benti á, að tala úti í bæ í stað þess að tala hér í þingsölum við okkur sem hér erum. Mér finnst mikilvægt að þessi umræða eigi sér stað hér og menn fari yfir málið alveg frá grunni og reyni að átta sig á því hvar almannahagsmunirnir liggja í málinu. Umræðan verður að eiga sér stað í þingsalnum en ekki einhvers staðar á fundum forsætisráðherra úti í bæ.

Þess vegna kem ég hér upp, virðulegur forseti, til þess að undirstrika þetta, en á þetta var m.a. minnst í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar.