139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[18:31]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma upp í lokin og þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni. Ég vil líka lýsa undrun minni á að ekki skuli fleiri hafa tekið til máls því að þetta er mál sem ætti að sameina þingið og þjóðina, á tímum þegar okkur veitir ekki af að standa saman um ákveðin mál sem eru til hagsbóta fyrir þjóðina. Það kann vel að vera að ástæðan fyrir því að umræðurnar hafa þróast með þessum hætti sé sú að þingheimur sé almennt sammála um að þetta fari fram og vilji greiða götu þess með því að taka ekki of mikið til máls.

Hér hafa verið fluttar góðar ræður og vel rökstutt hvers vegna málið eigi að ná fram að ganga. Það er athyglisvert að hugsa til þess að verið sé að blanda saman þessum tveimur málum, Icesave-málinu og hryðjuverkalögunum. Það er ekki að ástæðulausu vegna þess að málin eru að sjálfsögðu náskyld. Það er áhugavert, frú forseti, að á morgun hefjum við umræðu um Icesave 3, sem við köllum svo. Það er ágætt að hafa í huga hversu mjög málin tengjast, óréttlætið sem Bretar hafa beitt okkur og eru að reyna að beita okkur.

Frú forseti. Ég ítreka það sem kom fram þegar ég fór yfir þingsályktunartillöguna að henni verði vísað til utanríkismálanefndar til frekari meðferðar.