143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af þeim ummælum sem forseti hefur látið falla eftir að ég fór síðast úr ræðustól verð ég að segja að mér þykir ekki mikill bragur að því fyrir stjórnarmeirihlutann að sitja hér og mæla fyrir tillögu sem forseti lýsir yfir að sé svo hæpin að orðfæri og efni að hann lýsir ábyrgð á hendur flutningsmönnunum og vill ekki taka ábyrgð á henni vegna þess hvernig þar er vegið að æru einstakra manna. Hann tekur líka undir með tveimur prófessorum um að ekki sé hægt að efna hana að efni til, það sé ekki hægt að framfylgja henni að efni til.

Mér fyndist bragur að því fyrir stjórnarmeirihlutann að hugsa þá sinn gang. Við höfum viljað bæta umræðuhefð á Alþingi. Mér finnst forsætisnefnd þurfa að tala sérstaklega um það hvernig hægt sé að verja æru þingmanna fyrir ritsóðum á seinni stigum sem setja fram, þegar þeir eru sestir í ríkisstjórn, tillögur sem vega að æru þingmanna sem lokið hafa störfum sínum á Alþingi.

Mér finnst ekki boðlegt að ekki sé til umgjörð um það verkefni.

Svo ítreka ég það að ég gerði ráð fyrir (Forseti hringir.) að forsætisnefnd hefði fjallað um málið þegar forseti fjallaði um það hér áðan. Ég óskaði eftir því í morgun að forsætisnefnd fjallaði um málið, og ég ítreka þá ósk.