143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

umræður um dagskrármál fundarins.

[15:19]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Fram hefur komið hjá forseta að fyrirhugaður er fundur forsætisnefndar síðar í dag. Fyrir fundinum liggur meðal annars ósk um að nefndin fari yfir bréf hv. 4. þm. Suðvest., Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar. Í öðru lagi hefur forseta verið greint frá því héðan úr ræðustól Alþingis að honum hafi verið sent tölvubréf frá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur þar sem óskað er eftir að forsætisnefnd fari yfir þau mál sem hér hafa verið gerð að umræðuefni varðandi greinargerðina sem fylgir umræddri þingsályktunartillögu. Í sjálfu sér ætlar forseti því ekki að tjá sig frekar um efni þessarar beiðni hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur og bíða eftir því að fá tækifæri til þess í fyrsta lagi að lesa bréfið, í öðru lagi að íhuga það mál og í þriðja lagi að ræða það á forsætisnefndarfundi.