145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Þessa dagana heyrum við fréttir af bágri fjárhagsstöðu grunnskólanna í Reykjavík. Skólastjórnendur hafa stigið fram og fjallað um áhyggjur sínar vegna þeirrar stöðu sem uppi er og auk þess hafa samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, SAMFOK, miklar áhyggjur vegna boðaðs niðurskurðar í skóla- og frístundaráði á þessu ári.

Hagræðingarkrafan á árinu hljóðar upp á 670 milljónir. Samkvæmt fréttum segja skólastjórnendur að niðurskurðurinn komi þannig niður á þjónustu við nemendur að nemendahópar verða stærri og einstaklingsbundin þjónusta minni. Auk þess nái niðurskurðurinn beint til sérkennslu og áætlað er að sérkennsla í Reykjavík á síðasta ári hafi verið skorin beint niður um 20%.

Það er mjög alvarlegt mál þegar sérkennsla er skorin niður, þegar nemendur fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda, að grunnskólinn geti ekki vegna niðurskurðar komið til móts við mismunandi þarfir og getu nemenda. Það mun án efa hafa áhrif á líðan og námsgetu þeirra nemenda sem fyrir skerðingunni verða. Ef þetta ástand mun vara til lengri tíma getur það einnig haft áhrif á líðan einstaklingsins og færni til lengri tíma.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að með því að nota sérhæfða nálgun á námsárum barna í stað almennrar eflingar sem hentar öllum er hægt að hafa áhrif á þroska og námsframvindu barna til framtíðar svo að þau geti tekið virkari þátt í öllum störfum dagslegs lífs í framtíðinni.

Það er nauðsynlegt að tryggja grunnskólunum nægilegt fjármagn svo þetta góða fólk, kennarar, sérkennarar, þroskaþjálfar, stuðningsfulltrúar og allir þeir sem vinna hvern dag með börnunum okkar, fái þá aðstöðu og þau tæki sem þarf til þess að byggja börnin okkar upp og efla þau til framtíðar. Nauðsynlegt er að forgangsraðað sé í þágu þessara einstaklinga og önnur kostnaðarsöm verkefni sem falla ekki undir lögbundna þjónusta séu látin bíða á meðan þeim hlutum verður kippt í lag.


Efnisorð er vísa í ræðuna