146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[17:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur kærlega fyrir ræðu hennar. Það er ágætt að rifja upp að það voru þrjú álit um þetta mál þegar það var flutt á sínum tíma. Þegar maður rennir í gegnum það sést að ekki er endilega verið að horfa á breytingar við málið sjálft heldur snýr það frekar að vangaveltum um hvort eitthvað annað gæti hentað betur til að koma til móts við ungt fólk. Eins og hv. þingmaður fór í gegnum í áliti sínu er einmitt rætt um svokallaða kynslóðareikninga, sérstaklega skýrslu sem unnin var fyrir fjármálaráðherra af Friðriki Má Baldurssyni og Axel Hall. Þar er sagt mjög skýrt að breytt hegðun ungs fólks, þar sem við höfum lagt aukna áherslu á að fólk mennti sig, klári framhaldsskólapróf, háskólanám, hafi leitt til þess að fólk stofnar fjölskyldur seinna, fer seinna inn á vinnumarkað og er þar af leiðandi með lægri tekjur í lengri tíma en hækkar síðan hraðar eftir að það er komið inn á vinnumarkaðinn.

Ég held að ég sé ekki ósammála þingmanninum hvað það varðar. En ég mundi hins vegar vilja spyrja hana varðandi vaxtabæturnar. Ég hef frekar verið þeirrar skoðunar að styðja við fólk áður en það fer út í að taka lán, eins og með fyrstu kaupunum, en að við umbunum fólki fyrir að taka sem hæst lán, eins og vaxtabótakerfið gerir. Það er t.d. mjög harkaleg gagnrýni á hvernig fjölskyldum með háar tekjur er umbunað fyrir að skuldsetja sig mikið, eins og í bandaríska „vaxtabótakerfinu“. Sama gagnrýni hefur komið á vaxtabótakerfið á Íslandi. Er hv. þingmaður ekki sammála því sem m.a. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur bent á, að vaxtabæturnar (Forseti hringir.) hafi farið til tekjuhæstu heimilanna? Og jafnvel til fólks sem er með 15 milljónir, þar sem er skorið af, í árstekjur?