146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[17:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrra mínu andsvari nefndi ég að helsta áhersla hreyfingar minnar hefði verið á stöðu leigjenda. Eðli máls er það tekjulægsti hópurinn. Eðli máls samkvæmt voru þeir sem fengu leiðréttingu á húsnæðislánum líka í tekjuhærri hópum því að það er fólkið sem á eignir í samfélaginu. Eðli máls samkvæmt fara vaxtabætur þá til tekjuhærri hópa en húsaleigubætur. Eigi að síður hafa þær tekið mið af tekju- og eignastöðu. Það sem ég geri athugasemd við er að þessi skerðingarmörk hafa í raun verið óbreytt og þeim haldið óbreyttum. Það er gert í gegnum tekjubandorm án þess að það sé hluti af heildstæðri sýn á húsnæðismarkað.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður nefnir um námslán tek ég mjög undir það. Við sjáum mjög mikla aukningu úr til að mynda Lánasjóði íslenskra námsmanna til skólagjaldalána hér á Íslandi, ekki bara erlendis heldur er að minnsta kosti helmingur þeirra lána sem fer í skólagjöld til skóla á Íslandi, sem bætist ofan á framfærslulán. Það er áhyggjuefni. Ég vil minna á þær hugmyndir sem ég lagði fram á sínum tíma sem ráðherra, sem voru því miður aldrei kláraðar í þinginu en miðuðu að því að þeir sem lykju námi á tilteknum tíma fengju hluta höfuðstóls þeirra lána felldan niður. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi lán verða mikil byrði á þessu unga fólki. Við sjáum mun hærri tölur, ekki síst í skólagjaldalán. Skólagjaldalánin tel ég að þurfi að ræða sérstaklega í stefnumótun um Lánasjóð íslenskra námsmanna og hvert eigi að stefna með þau. Upphaflega voru þau hugsuð fyrst og fremst til erlendra skóla þar sem lengi hafa verið skólagjöld við lýði. Ég nefni Bandaríkin og Bretland þar. En við sjáum talsverða aukningu á því efni hér á Íslandi og alls ekki einungis á háskólastigi heldur líka í fjórðaþreps-skólum. Það er umræða sem við þyrftum að eiga hér á þinginu. Það hnígur samt allt í sömu átt, (Forseti hringir.) þ.e. að við þurfum að taka heildstætt á málefnum ungs fólks, bæði út frá námslánum og húsnæðisstuðningi.