148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

vegur um Gufudalssveit.

[11:11]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að ítreka það að ferlið í þessari vegaframkvæmd um suðurfirðina, sérstaklega gegnum Teigsskóg, hefur verið sorgarsaga stjórnsýslunnar í allt of langan tíma og tek undir með hv. fyrirspyrjanda. Þannig er staðan í þessu máli að í apríl, ef ég man rétt, var samþykkt í sveitarstjórn Reykhólahrepps að senda tillögu að aðalskipulagi til athugunar hjá Skipulagsstofnun. Ég veit að Skipulagsstofnun hefur farið yfir þá tillögu og býst við að sveitarstjórn auglýsi hana fljótlega, væntanlega á fyrstu fundum sínum nú að afloknum sveitarstjórnarkosningum, sem hefur kannski líka komið þarna inn í málið.

Eins og komið hefur fram var haldinn íbúafundur með norskum ráðgjöfum, Multiconsult, sem ætla að leggja óháð mat á valkosti að beiðni sveitarfélagsins. Það skal vinnast samhliða athugasemdafresti vegna auglýsingar á aðalskipulaginu. Þar af leiðandi er áætlað að ráðgjafar skili af sér núna í sumar. Samkvæmt því gæti staðfesting Skipulagsstofnunar á aðalskipulagsbreytingu eftir auglýsingu og athugasemdafrest legið fyrir í haust, nóvember, að því gefnu að það verði auglýst í júní, síðar ef það dregst. Því væri hægt að sækja um framkvæmdaleyfi í fyrsta lagi í nóvember 2018.

Ef við gerum ráð fyrir því, vegna forsögunnar, að það verði kært má gera ráð fyrir að úrskurður úrskurðarnefndar gæti legið fyrir í júlí 2019, að teknu tilliti til kærufrests og lögbundinna tímafresta, sem þýðir í raun og veru að við gætum farið af stað sumarið 2019. Verktíminn er áætlaður þrjú ár, öllum rannsóknum er lokið, það eru einhverjar mælingar eftir í Teigsskógi. Hönnun á brú í Djúpafirði er langt komin, aðrar brýr eru ekki komnar í verkhönnun. (Forseti hringir.) Þar með gætu verklok verið kannski haustið 2022 samkvæmt þessu plani miðað við alla venjulega tímafresti.