148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um Þjóðskrá Íslands, um hlutverk þjóðskrár. Ég ætla að byrja á að segja að það sem kveikti í mér að koma í ræðustól í andsvar var í raun og veru gjaldtakan sem fjallað er um hér og nefndin fjallaði þó nokkuð um, þjónustugjöld og gjaldtökuheimildir í 5. gr. frumvarpsins. Mér fannst hv. þm. Andrés Ingi Jónsson og hv. ræðumaður Björn Leví Gunnarsson fara ágætlega yfir það og get í raun ekki annað en tekið undir allt sem þar kom fram. Lykilorðið í því er auðvitað meðalhóf í allri gjaldtöku og nefndin fór mjög vel yfir mikilvægi þess að samræma þetta í þeim lögum þar sem slíkar heimildir eru til staðar og nefndin lagði áherslu á það í sínu áliti. Ég get tekið heils hugar undir með hv. þingmönnum í því. Stór hluti af kostnaði stofnunarinnar er óbeinn og það þarf að fara fram kostnaðargreining og þá er afar mikilvægt að bein tengsl séu milli þess kostnaðar sem fellur til og þeirrar þjónustu sem veitt er.

En fyrst við deilum áhuga á ríkisfjármálum ætla ég að spyrja hv. þingmann út í kostnaðarábatagreiningu markmiða sem kemur fram aftast í ríkisfjármálaáætlun og við höfum rætt þó nokkuð í hv. fjárlaganefnd, hvort hv. þingmaður geti farið aðeins yfir það hvað hann átti við í sinni ræðu.