148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[22:12]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Þetta er mjög fróðlegt, verð ég að segja, af því að þarna er beinlínis verið að nýta þessa þjónustu sem möguleika til þess að auka við rekstrarfé fyrirtækis. (SMc: Stofnunar.) Já, fyrirtækis eða stofnunar. Ég get alveg fullvissað þingmanninn um að það er ekki heimilt. Það má ekki. Það verður að vera hægt að sýna fram á að þetta sé beinn kostnaður við það sem þjónustubeiðandinn óskar eftir.

Svo veltir maður líka fyrir sér eins og í þessu tilviki, af því að þingmaðurinn nefndi Creditinfo, að svo veltir það fyrirtæki kostnaðinum áfram og leggur auðvitað ofan á. Creditinfo er bara fyrirtæki í einkaeign og á almennum markaði sem hefur enga viðlíka skyldu og opinber stofnun, eins og stjórnvald, að veita upplýsingar, að veita þjónustu, heldur getur það bara lokað sínum skrifstofum og hætt að veita þjónustu ef því sýnist svo.

Maður veltir fyrir sér hvort það að það hafi verið ákveðið að loka fyrir hluta af upplýsingum úr fyrirtækjaskrá standist. Ég er vel tilbúin að veita liðsinni mitt þegar Píratar fara af stað aftur.

En þá spyr ég aftur: Hefur þingmaðurinn á tilfinningunni að hér sé á ferðinni eitthvað viðlíka og var þá?