151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er algerlega sannfærð um að sú ákvörðun að vera samferða Evrópusambandinu í þessum efnum var rétt. Við höfum verið við borðið ásamt Norðmönnum sem hafa líka farið þessa leið og við teljum að með þeirri nálgun höfum við fengið aðgengi og aðkomu að samningum og upplýsingum sem hefðu ekki verið eins aðgengilegar með öðru móti. Það breytir því ekki að það kunna að vera aðrir möguleikar í stöðunni. Ég hef bara ekki heyrt um þá og ég hef ekki heyrt fólk nefna önnur plön en þau að vera samferða Evrópusambandinu í þessum efnum. Hins vegar deili ég því algjörlega með hv. þingmanni að það er löngu tímabært að við fáum upplýsingar um afhendingaráætlun fyrir ársfjórðung tvö.