151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:11]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég missti ekki af framsögu hæstv. heilbrigðisráðherra en vil þó halda áfram með spurningar mínar vegna þess að almannahagsmunir snúast um sóttvarnir. Að aflétta þeim og slaka á þeim og opna á komu ferðamanna með markaðsátaki er afskaplega vandmeðfarið. Það er pólitísk ákvörðun sem ríkisstjórnin verður að standa með að fullu. Það er mikill ábyrgðarhluti. Í besta falli, ef allt gengur eftir — vonandi, ítreka ég — fáum við verðmæta ferðamenn sem munu koma með nauðsynlega fjármuni inn í íslenskt efnahagslíf og ferðaþjónustuna en í versta falli munum við sjá fjölgun smita. Þá ábyrgð verða stjórnvöld að axla. Hvað ef versta sviðsmyndin raungerist og við stöndum uppi með þá staðreynd að hér þurfum við að stíga hröð skref til baka og loka og herða sóttvarnaaðgerðir? (Forseti hringir.) Er ríkisstjórnin tilbúin með aðgerðaáætlun eða sviðsmyndir þar að lútandi eins og þurfti að fara í síðasta sumar eftir ótímabærar tilslakanir á landamærunum (Forseti hringir.) sem voru gagnrýndar réttilega á Alþingi? Mun ríkisstjórnin vera tilbúin með (Forseti hringir.) áætlanir, greiningar og sviðsmyndir þar að lútandi?