151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:45]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þau eru ánægjuleg. Það er auðvitað mikið atriði hver ætluð áhrif þessarar breytingar núna verða á almenning hér innan lands og mér þætti það dýrkeypt ef þau skref sem verið er að taka núna yrðu til þess að almenningur á Íslandi myndi þurfa að bíða lengur með tilslakanir hér heima. Það er mikils virði að komast sem fyrst að landi, ekki síst í ljósi þeirra fórna sem almenningur hefur fært.

Spurning mín í þessari síðari lotu til hæstv. ráðherra er þá sú hvort fyrir liggi einhverjar efnahagslegar greiningar á ætluðum áhrifum. Ég átta mig á því að þau eru ætluð. En liggja fyrir einhverjar greiningar um ætlaðan efnahagslegan ávinning af þessum breytingum núna, hvað það mun þýða fyrir íslenskt efnahagslíf að taka þessi skref?