151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið en hún svaraði reyndar ekki spurningu um það hvort hún hafi séð svona falsað vottorð sem hún getur keypt sér auðveldlega í gegnum samfélagsmiðlasíðuna Telegram og kostar 25 dollara. Það væri athyglisvert að athuga hvort sóttvarnayfirvöld séu ekki alveg örugglega að byrgja brunninn hvað það varðar. Svo nefndi hæstv. heilbrigðisráðherra áðan að við erum að taka utan um þá einstaklinga sem hafa orðið fyrir eftirköstum og eru að glíma við langvinn eftirköst Covid. Þeir hafa fengið hjálp á Reykjalundi en nú voru þær fréttir að berast að Reykjalundur er hættur og búinn að loka á þessa aðstoð, er að vonast til að samræður við Sjúkratryggingar og þá væntanlega hæstv. heilbrigðisráðherra leysi þar úr þannig að við getum haldið áfram að hjálpa þessu fólki. Það eru ansi margir á bið, 50 á biðlista ef ég skil það rétt. Mig langar í kjölfarið að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort það sé ekki alveg á hreinu að við höldum áfram að hjálpa þessu fólki (Forseti hringir.) um leið og ég vonast til að við komum í veg fyrir að fleiri lendi í þessum hörmulegu aðstæðum.