151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ákvarðanir um breytingar á landamærum virðast óháðar gengi okkar varðandi bólusetningar en fyrir liggur að fyrri bólusetningaráætlanir stjórnvalda ganga ekki alveg eftir. Við fáum fregnir á morgun um AstraZeneca sem við höfum gert samninga við um 230.000 skammta. Þetta er auðvitað langstærsti hlutinn og maður veltir fyrir sér hvort við séum ekki í pínu vanda ef þetta gengur ekki eftir, ef Evrópska lyfjastofnunin afturkallar markaðsleyfið. Ég velti fyrir mér í ljósi þess að Europol hefur varað við fölsuðum vottorðum og bólusetningar innan lands kunna að riðlast hvort þessar ákvarðanir séu engu að síður teknar, þrátt fyrir allar varnaðarraddir og -bjöllur.