151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Enn vil ég þakka hv. þingmönnum og forseta fyrir góða umræðu og mikilvæga. Mér hefur þótt gott að finna fyrir því í gegnum allan þennan faraldur, en núna er komin á 13. mánuð þessi lota sem við höfum átt í hér á Íslandi, hversu almenn samstaðan er, ekki bara í samfélaginu heldur líka í þinginu með því að þingmenn hafa viljað beita gagnrýni, krefjast upplýsinga og gera ráð fyrir því að ég sé til svara, sem núna er raunar lagastoð fyrir. Það að við eigum samræður eins og þær sem við höfum átt í dag er ein af ástæðunum fyrir því hversu vel hefur gengið. Ég finn það á viðbrögðum og spurningum allra þeirra þingmanna sem hafa tekið þátt í dag hversu dýrmætur árangurinn er hér innan lands og hversu mikilsvert það er að stíga öll skref af varfærni. Ég hef alltaf talað fyrir því og sóttvarnalæknir hefur verið þar sömuleiðis. Við munum gera það áfram, hér eftir sem hingað til, vegna þess að þegar öllu er á botninn hvolft skiptir það mestu máli að við komumst sem heilust út úr þessari lotu sem hefur sannarlega verið fordæmalaus en hefur haft áhrif bæði á lýðheilsu og atvinnu- og efnahagslíf. En sem betur fer eru vísbendingar um að hún styttist í hinn endann, glíman við Covid-19. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)