151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

félög til almannaheilla.

603. mál
[18:13]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það liggur þá í rauninni skýrt fyrir að hvert félag mun einfaldlega meta lagaumhverfið í heild og hvar hag þess er best borgið. Það eru að verða verulegar breytingar á því lagaumhverfi og kerfi sem verður í kringum styrkveitingar til almannaheillageirans. Ég skil það þannig að það eigi að geta eflt allt sjálfboðastarf í landinu sem er mjög mikilvægt því að ýmiss konar félög og samtök standa fyrir mjög mikilvægri starfsemi á öllum sviðum, hvort sem það eru björgunarsveitir, íþróttastarf, hollvinasamtök ýmiss konar eða önnur almannaheillafélög.

Og þó að það sé líka ýmiss konar félagsstarfsemi sem ekki mun falla undir þessa löggjöf og telur sér engan hag í því þá á þessi löggjöf ekki að trufla þá félagastarfsemi neitt ef ég skil rétt. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra komi kannski aðeins inn á það og spyr bara beint hvort félög geti ekki örugglega valið að taka ekkert tillit til þessarar löggjafar og vera ekkert að óska eftir stuðningi, hvort það sé ekki réttur skilningur að það sé algerlega val félaga hvar þau standa hvað það varðar.

Síðan tek ég auðvitað undir það sem hæstv. ráðherra sagði í fyrra andsvari, nú er vonandi búið að sníða flesta vankanta af.