Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:35]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir skýrslu sína. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hver hann telji að beri ábyrgð á 3. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Hver ber ábyrgð á því að farið sé eftir meginreglum við sölumeðferð, að lögð sé rík áhersla á þessar meginreglur? Er það ekki fjármálaráðherra? Eða er það Bankasýslan? Ég tel að það sé fjármálaráðherra og Bankasýslan reyndar líka. Ég get vísað til 2. gr. um það að ráðherra skuli undirbúa greinargerð um ráðgerða sölumeðferð. Í 5. gr. um skýrslugjöf segir að ráðherra skuli leggja fyrir Alþingi skýrslu um sölumeðferð. Spurningin er þessi: Er það ekki rétt skilið að fjármálaráðherra ber ábyrgð á því að meginreglur laga við sölumeðferð á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sé fylgt? Ég hef mína skoðun á því að þessi ákvæði hafi verið brotin. Ég er ekki dómstóll, ég er ekki dómari. Þetta er mín skoðun og ég er að reyna að færa rök fyrir þeirri skoðun. Ég tel grundvallaratriði að sett sé á laggirnar óháð rannsóknarnefnd og ég get fært rök fyrir því.

Mig langar líka að spyrja ráðherrann um ákveðin atriði, ákveðnar meginreglur við sölumeðferðina, t.d. varðandi hagkvæmnina. Það segir í lögunum að með hagkvæmni sé átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhlutinn. Hvernig getur það verið hagkvæmni þegar veittur er afsláttur í umframeftirspurn? Nú fengu lífeyrissjóðirnir ekki að kaupa eins mikið og þeir vildu.

Önnur spurning lýtur að skilyrðunum: Hvaða skilyrði voru sett tilboðsgjöfum, eins og kemur fram í 3. gr.? Ég er hérna með listann yfir 207 sem fengu að kaupa. Lægsta tilboðið er 1.100 þús., 1.124 þús. kr. (Forseti hringir.) Almenningur fékk að kaupa fyrir milljón. (Forseti hringir.) Og þetta fengu fagfjárfestar (Forseti hringir.) að kaupa og þeir geta bara metið áhættuna. (Forseti hringir.) Spurningin er þessi: Hvaða skilyrði voru sett tilboðsgjöfunum?