Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:40]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvar sitt en hann svaraði bara fyrri hluta spurninganna sem ég vissi svarið við í upphafi. Það er mjög gott að spyrja þannig spurninga. Hann svaraði hins vegar ekki spurningunni um meginregluna um hagkvæmni, um að leita eigi hæsta verðs. Það var selt í umframeftirspurn með afslætti. Það er ekki að leita hæsta verðs.

Ég ítreka spurningu mína aftur um skilyrðin: Hvaða skilyrði voru sett? Var virkilega ekkert lágmarksverð sett? Gat einstaklingur keypt fyrir 1.124.954 kr.? Það var fagfjárfestir sem keypti fyrir þessa upphæð. Almenningur keypti fyrir rúmu hálfu ári síðan fyrir 1 milljón. Það er verið að auka um 125.000 kall og um er að ræða fagfjárfesti. Hann hefði getað metið áhættu á markaði. Fagfjárfestar eru ekki merkilegri en það. Var virkilega enginn botn settur á skilyrðin? Ég hef haldið að þetta væri í milljörðum, að tilboðin þyrftu að vera upp á hundruð milljóna í svona stórum viðskiptum.

Annað sem langar að spyrja um er varðandi jafnræðið og sanngirnina sem átti að eiga sér stað. Voru virkilega ekki sett nein skilyrði sem lutu að sanngirni og jafnræði? Almenningur er að spyrja sig að því, það er í umræðunni núna, í hverja var hringt. Jú, það var hringt í þau nöfn sem eru á þessum lista sem ég held á en aðra ekki. Ég er því miður ekki fagfjárfestir. Ef ég væri fagfjárfestir færi ég í viðurkenningarmál gegn fjármálaráðherra, viðurkenningu á því að þetta ákvæði hafi verið brotið. Ég hefði lögvarða hagsmuni af því. Ég hef því miður ekki lögvarða hagsmuni af því. En spurningin er þessi: Hvaða skilyrði voru sett? Það voru engin skilyrði sett. Þetta er algjört húmbúkk, algjört. Það er verið að vísa hérna í hæfa fjárfesta, fagfjárfesta, guð má vita hvað, og það voru engin skilyrði sett um jafnræði eða sanngirni, engin skilyrði sett um lágmarksfjárhæð sem þessir blessuðu fagfjárfestar áttu að geta boðið, heldur réðu söluráðgjafarnir þessu algerlega sjálfir. Þeir hringdu í vini sína og kunningja og enga aðra, hringdu í þá sem þeir vildu eiga viðskipti við í framtíðinni. (Forseti hringir.) Það var öll sanngirnin og jafnræðið í því. En hver voru skilyrðin?