Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég misskil ekki neitt. Þetta er svo einfaldur texti sem við erum að glíma við.

Í seinna andsvarinu langar mig að spyrja aðeins um pólitíska ábyrgð. Það hefur komið fram í umsögnum sérfræðinga sem mættu fyrir fjárlaganefnd og í umsögn Bankasýslunnar fyrir fjárlaganefnd að í frumútboði, svona IPO, séu almennar væntingar bæði kaupenda og seljenda að verð á þeim hlutabréfum sem eru í boði í frumútboði séu um 5%, bæði kaupendur og seljendur yrðu ánægðir ef það markmið myndi nást, 5% hækkun á hlutabréfum. Við erum að glíma við 60% hækkun á hlutabréfum. Þetta segir hæstv. ráðherra að sé alveg æðislegt af því að afgangurinn af bankanum sé núna miklu verðmætari. Já, hann er miklu verðmætari af því að það var svo mikið vanmat, vanmat á verðinu, þannig að 35% af bankanum var seldur á undirverði sem kostar okkur 30 milljarða kr. Það er pólitísk ábyrgð ráðherra að hafa gert það. 30 milljarða tap. Afgangurinn er að sjálfsögðu á réttu verði núna samkvæmt markaðnum. Ekkert að því. En það er ekki hægt að tala um að það sé hækkun af því að það var vanmat. Að hvaða leyti finnst ráðherra það vera boðleg meðferð á ríkiseign?