Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst ósanngjarnt hjá hv. þingmanni að koma hingað og tala um að Bankasýslan vilji ekki svara þinginu þegar hv. þingmaður veit mjög vel að Bankasýslan mun skila löngu skriflegu svari á morgun og vera á fundi fjárlaganefndar á miðvikudaginn, bara þannig að það hafi komið fram. Og já, ég tel enn að þetta útboð hafi tekist vel á alla helstu mælikvarða; verð, dreifingu, fjölbreytni í eigendahópnum en það eru annmarkar sem ég fór yfir í máli mínu áðan sem eru til skoðunar og við þurfum að fá botn í. Ég ætla að frábiðja mér fullyrðingu um að ég hafi ekki vitað neitt hvað var að gerast o.s.frv. Ég spyr hins vegar hv. þingmann: Vill hv. þingmaður halda í Bankasýsluna? Telur hún það æskilegt fyrirkomulag fyrir framtíðarsölu? Lagði hv. þingmaður til lágmarksverð í þinglegu meðferðinni? Skrifaði hv. þingmaður ekki undir nefndarálit? Fékk hv. þingmaður ekki kynningu á þessu? Lagði hv. þingmaður ekki til einhvers staðar í ferlinu að þessum atriðum sem henni finnst vera svo mikið grundvallaratriði yrði fylgt?

Ég ætla að lýsa mig ósammála því sem hv. þingmaður segir, að það sé lögbrot að setja ekki lágmarksþátttöku. (KFrost: Ég sagði það ekki.)Það er ekki annað hægt að skilja á hv. þingmanni (Gripið fram í.)(Gripið fram í.)— get ég fengið frið til að flytja ræðu mína? Get ég fengið frið? (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Hv. þingmaður (Forseti hringir.) sagði í ræðustól rétt áðan að það væri skilyrði fyrir því að fara einhverja aðra leið en þá að fara í almennt útboð að eingöngu stærri fjárfestar fengju að komast að. Þar með er hv. þingmaður að segja að lagaskilyrði hafi ekki verið uppfyllt að framkvæma útboð með þessum hætti þegar smærri fjárfestum er hleypt að og hér er sérstaklega rakið að þeir séu óæskilegir vegna þess að þeir séu kvikir, en raungerðist hættan af kvikum fjárfestum í þessu útboði? Ég ætla að biðja hv. þingmann að svara því hvort hættan hafi raungerst. Hver var hættan? Var ekki hættan sú að bréfin myndu lækka ef kviku fjárfestarnir myndu allir rjúka til og selja sig út? En það sem gerðist eftir útboðið var að hluthöfunum fjölgaði (Forseti hringir.) og verðið hækkaði. Hvar raungerist þá þessi mikla hætta sem hv. þingmaður hefur gert að aðalumræðuefni ræðu sinnar í dag?