Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:14]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en þakkað fyrir það traust sem mér er sýnt að ég hefði átt að sjá þetta allt saman fyrir. Ég veit ekki betur en að ég beri ekki ábyrgð á þessu ferli heldur er það hæstv. fjármálaráðherra. Það er Bankasýslan sem er með upplýsingaskyldu, fjárlaganefnd er með eftirlitsskyldu og ef það væri eitthvað óljóst sem hefði ekki verið flaggað hefði það verið Bankasýslan sem átti að flagga því.

Varðandi það að setja eitthvert lágmark þá liggur alveg fyrir að ef það átti að brjóta þessa meginreglu — við þurfum að muna hver er andi þeirra laga sem hér er verið að selja eignir undir. Það er opið ferli, jafnræði. Ef farið er í ferli þar sem er klippt á opið ferli, klippt á jafnræði, þá hlýtur að þurfa ríka ástæðu til, að það sé eðli fjárfestanna sem skiptir máli, að hleypa að þeim aðilum sem ætla að standa með bankanum og hafa þekkingu. Hvernig stendur á því, eins og ég var að lesa upp í þessu minnisblaði og hæstv. ráðherra var greinilega ekki að fylgjast með, að ítrekað er gefið í skyn að verið sé að fara aðra leið? Það skildu nær allir, ég myndi segja kannski yfir 80% Íslendinga, að þetta væri tilgangurinn. Svo er snúið hér út úr. Nei, ég sá ekki þessa hættu fyrir fram. Mér datt ekki í hug að hæstv. fjármálaráðherra skyldi fara þessa leið með þennan banka, en ef ég hefði setið í hans stól hefði ég svo sannarlega gert þetta öðruvísi, ef ég hefði fengið aðgang að öllum þeim upplýsingum sem hæstv. fjármálaráðherra fékk umfram staka þingmenn í eftirlitsnefndum þingsins.