Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Í svona óvissum aðstæðum þá hjálpar tíminn vissulega. En vegna þess hvernig þetta ferli var allt uppsett, hvernig þinginu var settur tímarammi af framkvæmdarvaldinu, þinginu sem á að eftirlit með framkvæmdarvaldinu, vegna þess að það var hæstv. fjármálaráðherra sem hefur klúðrað ýmsum öðrum málum eins og t.d. fyrri sölu á hlutum í Íslandsbanka að sjálfsögðu, að mínu mati og ég hef rökstutt það, þá kvittaði ég alla vega ekki upp á það að ég treysti hæstv. ráðherra fyrir því að selja bankann. Sá tími sem vannst til að fara yfir málið hérna á þingi leiddi mig óhjákvæmilega að þeirri niðurstöðu. Ég velti fyrir mér af hverju aðrir komist ekki að þeirri niðurstöðu líka. Ég myndi ekkert fullyrða að ég hefði komist að annarri niðurstöðu með lengri tíma eða að hv. þingmaður hefði komist að annarri niðurstöðu með lengri tíma. En það eru tvímælalaust atriði sem standa út af sem við hefðum getað spurt betur og nákvæmar um, sem við höfðum einfaldlega ekki tíma til. Það er möguleiki á því að niðurstaðan hefði verið önnur ef við hefðum haft lengri tíma.