152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:03]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi það bara aftur að þegar við höfum fyrir framan okkur gögn þar sem við getum metið aðstæður, metið þetta allt saman, hvað fram fór — það er sannarlega svo, eins og hv. þingmaður nefnir hér, að framkvæmdarvaldið er upplýst á hverjum tíma, að sögn. Það hlýtur þá að koma fram í þessari skýrslu sem Bankasýslan ætlar að afhenda okkur á morgun og þá getum við í framhaldinu væntanlega myndað okkur einhverja skoðun á a.m.k. því sem þar kemur fram. Síðan verðum við auðvitað líka að leyfa ríkisendurskoðanda, og treysta þeim stofnunum sem við erum hér með undir og Fjármálaeftirlitinu, að fara í þá þætti sem þar eru. Og þá og ekki fyrr en þá ætla ég a.m.k. að fella hér dóma um hvort ráðherra eigi að segja af sér eða hvað. Það að lagt sé til að Bankasýslan verði lögð niður — mér finnst mjög margt, a.m.k. líður mér þannig í dag, benda til þess að þetta fyrirkomulag sé ekki með þeim hætti sem ég hefði viljað sjá. Ég treysti því og trúi að það séu fleiri þingmenn mér sammála um það og mér hefur reyndar heyrst það í umræðunni.