Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:52]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir svarið og tek undir það að auðvitað vona ég að hægt verði að halda áfram að selja þessa eign til almennings og fjárfesta sem vilja þá standa með bankanum til lengri tíma, jafnvel þótt illa ári og illa kunni að fara. Við megum ekki gleyma því að bankarekstur er í eðli sínu áhættusamur. Þó að bankarnir hafa verið að skila góðri afkomu að undanförnu er auðvitað ekki víst að það verði um aldur og ævi eins og við þekkjum mætavel. Þá er ég ekki bara að vísa í hrunið heldur líka áratuginn á undan þar sem ríkið þurfti oft að leggja fjármuni inn í banka sem það var með á sínu forræði.

En það sem mig langaði að nefna, af því að verið er að tala um að stjórnarandstaðan sé alltaf einhvern veginn að reyna að klemma fjármálaráðherra — ég ætla aftur að lesa það sem kom fram hjá Bankasýslunni eftir páska:

„Framkvæmd útboðsins fór eins fram og því hafði verið lýst af hálfu stofnunarinnar frá upphafi til loka, í nánu samstarfi við stjórnvöld sem voru ítarlega upplýst um öll skref sem stigin voru.“

Það er verið að segja: Fjármálaráðherra og stjórnvöld vissu allan tímann nákvæmlega alltaf hvað við vorum að gera hjá Bankasýslunni. (Forseti hringir.) Ef Bankasýslan þarf að víkja þá kallar það auðvitað á einhvers konar spurningar (Forseti hringir.) um pólitíska ábyrgð í málinu. Við hljótum að geta verið sammála um það.(Forseti hringir.) Þannig að það að spyrja spurninga um pólitíska ábyrgð (Forseti hringir.) hlýtur að vera réttmætt og réttlætanlegt eins og sakir standa.