Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra hefur nú ítrekað tjáð sig um bankamál og lýst, að því er virtist, stefnu ríkisstjórnar í þeim málaflokki, til að mynda hótað því að hækka aftur bankaskatt rétt eftir að hæstv. fjármálaráðherra var búinn að lækka þann skatt með þeim afleiðingum að ráðherrann steig fram og sagði það ekki koma til greina. Og nú síðast með yfirlýsingum sínum um varnaðarorð á fundi í ráðherranefnd sem hæstv. forsætisráðherra brást reyndar við með því að benda á að hefðu ekki verið bókuð. Ég tók eftir því að hv. þingmaður lagði fram mjög áhugaverða fyrirspurn til skriflegs svars í dag um ástæður þess að hæstv. ráðherra hefði ákveðið að taka ekki mark á hugsanlegum viðvörunum hæstv. menningarmálaráðherra og taka frekar mark á tillögum hæstv. fjármálaráðherra. Ég held reyndar að það væri mjög æskilegt að við fengjum svör við þessari góðu spurningu strax á morgun frá hæstv. forsætisráðherra frekar en að bíða í nokkra mánuði eftir svari við skriflegri fyrirspurn sem berst iðulega mjög seint eins og við þekkjum, því að þetta lýtur að því að skýra með hvaða hætti þetta ferli hefur verið. Þar er margt á reiki enn þá. Hér áðan heyrðum við hv. þm. Harald Benediktsson lýsa því að hann hefði ekki hugmynd um hvert eigi að vera hlutverk minni fjárfestanna í þessu útboði. (Forseti hringir.) Hann virtist bara reiða sig á það sem birtist í fréttum um það. Þingmenn stjórnarliðsins eru því greinilega (Forseti hringir.) margir hverjir í algjörri óvissu um þetta, frú forseti. En vonandi fáum við frekari svör á morgun, ef ekki í kvöld.