Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Mér hefur fundist sérstaklega áhugavert að fylgjast með þingmönnum Vinstri grænna í ljósi þeirrar miklu áherslu þeirra, nánast frá upphafi þessa máls, að afleiðingin hljóti að vera sú að Bankasýslan eigi að víkja. Núna, þegar hv. þingmaður er að tala um að vantað hafi upp á gagnsæi og vantað hafi upp á upplýsingagjöf, sem ég er einlæglega sammála, þá spyr ég þingmanninn hvort það sé hennar skoðun að eingöngu hafi vantað upp á upplýsingagjöf og eingöngu vantað upp á gagnsæi hvað varðar þann þátt málsins sem laut að útfærslunni hjá embættismönnum. Hvað með gagnsæi og upplýsingagjöf af hálfu ríkisstjórnarinnar sjálfrar og ráðherranna sjálfra, t.d. um aðdraganda sölunnar, t.d. samskipti forsætisráðherra og viðskiptaráðherra? Það hefur komið fram í fjölmiðlum að viðskiptaráðherra talar um að hann hafi viðhaft einhver varnaðarorð í samskiptum ráðherranna. Á almenningur ekki rétt á upplýsingagjöf og gagnsæi hvað þetta varðar?