Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins út í rannsóknarnefndina. Ég var aðeins að pæla í þessu áðan. Nú er það þannig að við erum með fordæmi fyrir því að Ríkisendurskoðun sé að skoða einkavæðingu banka fyrir hrun og svoleiðis. Út úr því kom bara heilbrigðisvottorð, að það hafi ekki verið neitt sérstaklega mikið að. Síðan kom rannsóknarnefnd Alþingis og benti á allt sem fór úrskeiðis, og það vantaði örugglega eitthvað ef eitthvað er, ýmislegt, það var alveg gríðarlega margt að. Ég klóra mér aðeins í hausnum og sé að núna er Ríkisendurskoðun sem sagt að pæla í svipuðum málum, sölu á banka. Þá sé ég tvo möguleika. Annars vegar að Ríkisendurskoðun komist ekki að neinu, að það hafi bara allt verið í himnalagi. Þá erum við með sömu stöðu og við vorum með síðast. Ríkisendurskoðun er einfaldlega ekki með tækin og tólin sem þarf til að komast að sömu niðurstöðu og rannsóknarnefndin gerði forðum daga og við verðum engu nær um það hvort eitthvað fór úrskeiðis eða ekki ef Ríkisendurskoðun skilar ekki neinu nema heilbrigðisvottorði. Hitt er síðan að ef Ríkisendurskoðun skilar þeirri niðurstöðu að eitthvað hafi verið að, fullt að, þetta og þetta og þetta, þá erum við samt í þeirri stöðu að þurfa rannsóknarnefnd. Í báðum tilfellunum, þ.e. að Ríkisendurskoðun skili engri niðurstöðu, að allt hafi verið í fína lagi, eða að þetta hafi ekki verið í fína lagi, þá er nauðsynlegt að kalla rannsóknarnefnd saman. Hvers vegna erum við þá ekki að kalla rannsóknarnefnd saman strax?