Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er til slatti af gögnum um það hvenær Bankasýslan hitti ráðuneyti og stjórnvöld, og þá sérstaklega ráðherranefnd um efnahagsmál, ég held að mér hafi verið sagt að þau hafi alla vega mætt á tvo af þeim fundum sem ráðherranefnd um efnahagsmál hélt um þetta mál. Miklu oftar, bjuggu niðri í ráðuneyti, nokkurn veginn þannig var komist að orði á nefndarfundum fjárlaganefndar. Það er mjög margt sem bendir til þess að það sé alveg rétt sem Bankasýslan segir að hún hafi upplýst stjórnvöld um hlutina reglulega. En á sama tíma sé ég hvernig Bankasýslan mætti í fjárlaganefnd og útskýrði hlutina sem var ekkert rosalega nákvæmt og alls ekki fyrir leikmenn. Við þingmenn erum leikmenn í svona atriðum. Við erum ekki sérfræðingar í því að selja banka. En fjármálaráðuneytið á að vera með aðgang að slíkum sérfræðingum þannig að Bankasýslan gat kannski talað á faglegra máli við þá en við fjárlaganefnd. Það er alveg augljóst að þeir fundir, við stjórnvöld, við bæði ráðuneyti og ráðherra, voru mun fleiri en fjárlaganefnd fékk með Bankasýslunni. Það var miklu minni tími sem þingið fékk til að komast til botns í því hvað í ósköpunum Bankasýslan meinti eiginlega og hvernig Bankasýslan skildi leiðbeiningarnar frá ráðuneytinu. Það eru kannski spurningar sem við hefðum einmitt viljað spyrja í morgun. Við fáum þó vonandi að spyrja betur út í það á fundi með Bankasýslunni á miðvikudaginn. Fylgist með því.