Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það væri vel þegið ef stjórnarþingmenn myndu hætta að leggja okkur í stjórnarandstöðunni alltaf orð í munn. Það hefur enginn, ekki einn einasti hallmælt Ríkisendurskoðun. Það treysta allir Ríkisendurskoðun til þeirra verka sem Ríkisendurskoðun getur sinnt. Ég skil vel að Ásthildur Lóa Þórsdóttir vantreysti Fjármálaeftirlitinu á ákveðinn hátt og út frá því sjónarmiði skil ég það bara mjög vel, ekkert að því. En það er ekkert endilega almenn skoðun við núverandi aðstæður. Þannig að ef stjórnarþingmenn gætu vinsamlegast hætt að segja okkur hvað stjórnarandstaðan er að segja, hætt að leggja okkur orð í munn, þá væri það vel þegið. Við treystum Ríkisendurskoðun til að sinna þeim verkefnum sem henni ber að sinna. En við erum að benda á að það eru fordæmi fyrir því að Ríkisendurskoðun getur ekki skoðað allt. Það er nefnilega sorglegt sem lítur út fyrir að verið sé að gera núna, að það sé verið að skoða fólkið á gólfinu en ekki ráðherra sem ber líka ábyrgð á því að selja pabba sínum banka.